Sænskir miðlar hafa þetta eftir sendiráðum bæði Bosníu og Hersegóvínu og Sýrlands. Sænsk stjórnvöld halda spilunum þétt að sér í tengslum við upplýsingagjöf um hina látnu í árásinni.
Lögregla hefur einungis gefið þær upplýsingar að hinir látnu séu af nokkrum þjóðernum. Frekari upplýsingar fáist ekki að svo stöddu.
Samkvæmt upplýsingum frá bosníska sendiráðinu í Svíþjóð lést einn Bosníumaður í árásinni auk þess sem einn særðist.
„Við vottum fjölskyldum hinna látnu okkar innilegustu samúðarkveðjur, þar á meðal sýrlenskum ríkisborgurum og innfæddum,“ hefur BBC eftir sýrlenska sendiráðinu í Svíþjóð.
Ekki liggur fyrir hve margir Sýrlendingar særðust eða létust í árásinni en Aftonbladet greinir frá því að hinn 28 ára gamli Salim Iskef frá Sýrlandi sé meðal látinna.
Fram kemur að Iskef og fjölskylda hans, hafi flúið stríðið í Sýrlandi árið 2015 og sest að í Svíþjóð. Til stóð að Iskef kvæntist í sumar. Santa Maria Orþódox-kirkjan í Örebro minntist hans á Facebook í gær en hann var meðlimur í trúfélaginu.
Hinn 35 ára gamli Rickard Andersson er grunaður um að hafa orðið tíu manns og sjálfum sér að bana í Risbergska-skólanum í Örebro á þriðjudag. Hann fannst látinn með þrjú skotvopn sér við hlið eftir árásina.
Stjórnvöld í Svíþjóð sæta gagnrýni vegna þess hve langan tíma hefur tekið að veita upplýsingar um hina látnu látnu. Í umfjöllun Aftonbladet segir að enn sé ekki búið að bera kennsl á alla sem létust. Aðstandendum sé enn óljóst hvort fjölskyldumeðlimir þeirra sem urðu fyrir árásinni séu lífs eða liðnir. Þá hafi reynst erfitt að bera kennsl á einhver lík vegna mikilla áverka.