Eyjafjarðarmiðillinn Akureyri.net greinir frá þessu en þetta kom fram í skriflegu svari Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins við fyrirspurn miðilsins. Ný Vínbúð verður opnuð í verslunarkjarnanum Norðurtorgi nyrst í bænum væntanlega í næsta mánuði.
„ÁTVR auglýsti eftir húsnæði fyrir nýja Vínbúð í sept. 2022. Meðal krafna var að húsnæðið væri á skilgreindu miðsvæði eða verslunar og þjónustusvæði. Norðurtorg uppfyllti skilyrði útboðsins og voru með hagstæðasta tilboðið,“ sagði í svari ÁTVR en fram kemur í umfjöllun Akureyri.net að fyrri umfjöllun þeirra um málið hafi vakið furðu lesenda yfir því að ekki yrði rekin áfengisverslun miðsvæðis í bænum.
Haft er eftir Sigrúnu Ósk Sigurðardóttur aðstoðarforstjóra að ekki sé fjárhagslegur grundvöllur fyrir rekstri tveggja Vínbúða á Akureyri eins og staðan er í dag.