Skoðun

Sam­einandi afl í skot­gröfunum?

Hjörtur J. Guðmundsson skrifar

Meðal þess sem vakti athygli á fundi Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur í Sjálfstæðissalnum við Austurvöll í janúar, þar sem hún lýsti yfir framboði til formanns Sjálfstæðisflokksins, var að þar voru ýmsir einstaklingar sem þekktir hafa verið fyrir það að styðja Guðlaug Þór Þórðarson. Hafði Áslaug orð á þessu í fjölmiðlum og lýsti ánægju sinni með það.

Hafa má þetta í huga þegar reynt er að teikna upp þá mynd að Guðrún Hafsteinsdóttir sé einhvers konar framlenging af Guðlaugi Þór í formannsslagnum. Veruleikinn er einfaldlega sá að alls kyns fólk í Sjálfstæðisflokknum styður Áslaugu og að sama skapi alls kyns fólk Guðrúnu. Ef eitthvað þótti þó mun einsleitari hópur mæta á fund Áslaugar.

Ég hef til dæmis aldrei kosið Guðlaug Þór í eitt eða neitt og verið í þeim armi Sjálfstæðisflokksins sem hefur ekki stutt hann. Komið er ár síðan ég fór að tala við fólk um að Guðrún Hafsteinsdóttir væri að mínu mati góður kostur sem næsti formaður flokksins og margir mánuðir síðan ég fór að hvetja hana til þess að gefa kost á sér í formennskuna.

Með öðrum orðum löngu áður en Guðlaugur Þór tilkynnti að hann ætlaði ekki að gefa kost á sér í formanninn í byrjun þessa mánaðar. Fram að því var talið líklegt að hann myndi fara í framboð og væntanlega hefur hann allt fram á þann dag eða því sem næst velt því alvarlega fyrir sér áður en hann komst að þeirri niðurstöðu að láta ekki verða af því.

Hið sama á við um fjölmarga aðra sem styðja Guðrúnu. Þeir hafa verið allt annað en stuðningsmenn Guðlaugs Þórs. Hins vegar er skiljanlegt að þeir sem vilja viðhalda þeim átökum á milli fylkinga sem gert hafa Sjálfstæðisflokknum erfiðara fyrir að beita sér út á við sjái sér hag í því að draga upp þá mynd að um sé að ræða sömu átök fylkinga og áður.

Veruleikinn er sá að Guðrún hefur aldrei tilheyrt neinum fylkingum innan Sjálfstæðisflokksins og er fyrir vikið vel til þess fallin að sameina flokksmenn. Ólíkt Áslaugu sem tekizt hefur harkalega á við Guðlaug Þór í skotgröfunum um árabil og því vandséð hvernig hún getur með sannfærandi hætti verið sameinandi afl fyrir okkur sjálfstæðismenn.

Höfundur er sagnfræðingur og alþjóðastjórnmálafræðingur (MA í alþjóðasamskiptum með áherzlu á Evrópufræði og öryggis- og varnarmál) og heldur úti vefnum Stjórnmálin.is.




Skoðun

Skoðun

Reykja­vík er höfuð­borg okkar allra

Ásthildur Sturludóttir,Dagmar Ýr Stefánsdóttir,Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir,Gerður Björk Sveinsdóttir,Íris Róbertsdóttir,Jóna Árný Þórðardóttir,Katrín Sigurjónsdóttir,Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir,Sigríður Júlía Brynleifsdóttir,Sigurjón Andrésson skrifar

Skoðun

Ás­laug Arna er fram­tíðin

Anton Berg Sævarsson,Birkir Örn Þorsteinsson,Birta Karen Tryggvadóttir,Hulda Dröfn Sveinbjörnsdóttir,Ísak Svavarsson,Lovísa Ólafsdóttir,Páll Orri Pálsson,Þorleifur Hallbjörn Ingólfsson skrifar

Sjá meira


×