Skoðun

Við þurfum ekki að hafa alla með okkur í liði

Davíð Már Sigurðsson skrifar

Nú ber en frekar á óþolinmæði fyrir aðgerðum Kennarasambandsins, hvort sem það eru foreldrar, atvinnurekendur eða stjórnvöld. Við sem stétt höfum verið dugleg að kalla eftir því að foreldrar girði sig, ali upp krakkana sýna og standi með kennurum. Beri virðingu fyrir störfum kennara. Sem er allt gott og blessað. Það fylgir því auðvitað mikil vinna að vinna traust og virðingu kúnnahópsins sem við þjónustum. Það er líka hluti af vinnunni. En hvað ætlum við að gera við alla þessa virðingu. Stinga henni í vasann? Setja hana ofan á brauð? Hún borgar ekki reikningana.

Ég sem kennari er bara frekar til í að fá hærri laun, meiri kost á yfirvinnu, að hafa nóg fyrir stafni. Ég ávinn mér svo sjálfur virðingu, með því að standa mig vel í starfi, bæði gagnvart foreldrum og nemendum. Verst að maður getur ekki bara beðið um launahækkun fyrir að skila af sér meir framleiðni í rekstrarumhverfi skólans.

Verum þá hörð í horn að taka og hættum að biðjast afsökunar á að berjast fyrir betri kjörum. Ég betla ekki um virðingu frá foreldrum eða nemendum og ég vill ekki að við sem starfstétt gerum það heldur. Við erum hörkutól, högum okkur þannig. Við vitum nefnilega að til að vera góður kennari þá þarftu að vera með bein í nefinu. Við tökumst á við krefjandi aðstæður á hverjum degi. Að geta tekist á við erfið mál og tækla þau af festu og fagmennsku eru okkar ær og kýr.

Hættum að tala um mannsæmandi laun, það veit í rauninn enginn hvað það þýðir. Ég man ekki eftir að hafa nokkurn tímann mætt í launaviðtal og beðið um mannsæmandi laun. Berjumst bara fyrir góðum launum. Og sjáum svo sjálf um að afla okkur virðingar. Það mun enginn sjá um að gera það fyrir okkur.

Höfundur er kennari.




Skoðun

Skoðun

Reykja­vík er höfuð­borg okkar allra

Ásthildur Sturludóttir,Dagmar Ýr Stefánsdóttir,Eyrún Ingibjörg Sigþórsdóttir,Gerður Björk Sveinsdóttir,Íris Róbertsdóttir,Jóna Árný Þórðardóttir,Katrín Sigurjónsdóttir,Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir,Sigríður Júlía Brynleifsdóttir,Sigurjón Andrésson skrifar

Sjá meira


×