Upp­gjörið: Ís­land - Tyrk­land 83-71 | Ís­land tryggði sér sæti á EM

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Martin Hermannsson í baráttunni í Laugardalshöll. Hann var stigahæsti leikmaður Íslands í kvöld með 23 stig. 
Martin Hermannsson í baráttunni í Laugardalshöll. Hann var stigahæsti leikmaður Íslands í kvöld með 23 stig.  Vísir/Anton Brink

Ísland tryggði sér sæti á Evrópumótið í körfubolta í sumar með 83-71 sigri gegn Tyrklandi í lokaleik undankeppninnar. Strákarnir okkar þurftu sigur í kvöld til að tryggja sætið og kláruðu verkefnið með stæl gegn gríðarsterku tyrknesku liði. Ísland byrjaði leikinn stórkostlega og sigurinn varð aldrei tvísýnn.

Ísland fór með sigrinum upp fyrir Tyrki og endar í öðru sæti riðilsins. Þetta verður í fyrsta sinn síðan árið 2017 sem Ísland kemst í lokakeppnina en hún fer fram í ágúst og september í Finnlandi, Kýpur, Lettlandi og Póllandi. 

Það gerir sigurinn líka enn sætari að Ítalía hafi ekki gert Íslandi greiða með því að vinna Ungverjaland. Ísland þurfti þennan sigur gegn Tyrkjum til að komast inn á EM. 

Fagnaðarlæti í leikslok. Sæti á EuroBasket 2025 tryggt. vísir / antonvísir / anton

Fyrir fullri höll

Mikil stemming hafði myndast í uppseldri Laugardalshöll fyrir leik. Gríðarleg spenna í húsinu sem strákarnir nýttu sér vel. Þeir byrjuðu af miklum krafti og komust fljótt tíu stigum yfir, 14-4.

Stemningin var stórkostleg í stappfullri Laugardalshöll.vísir / anton

Misstu ekki dampinn

Sama staða var uppi gegn Ungverjum í síðasta leik, frábær byrjun og 14-4 forysta, en eftir það fór allt í skrúfuna.

Strákanir gerðust ekki sekir um sömu mistök, brugðust mun betur við mótlæti í kvöld og hleyptu Tyrkjunum ekki inn í leikinn þó þeir tækju áhlaup.

Ísland hélt áfram að spila stórvel og byggði sér upp fimmtán stiga forystu í öðrum leikhlutanum. Tryggvi Hlinason tók mikið til sín á þeim tíma, tróð boltanum og blokkaði hann á hinum endanum.

Tryggvi treður.vísir / anton
Tryggvi blokkar.vísir / anton

Forystan minnkaði fyrir hálfleik

Fyrri hálfleikur endaði hins vegar ekki nógu vel hjá Íslandi, Tryggvi klúðraði tveimur vítum og síðan tapaði liðið boltanum tvisvar. Tyrkir nýttu sér mistökin til að minnka muninn úr fimmtán niður í átta stig fyrir hálfleik. Staðan 46-38 þegar flautað var til hlés.

Tyrkirnir tóku áhlaupið með sér en strákarnir svöruðu

Tyrkirnir tóku áhlaupið undir lok fyrri hálfleiks með sér inn í seinni hálfleikinn, á meðan Ísland byrjaði illa. Martin Hermannsson var sem betur fer sjóðheitur og sá um sóknarleikinn áður en aðrir leikmenn tóku við sér.

Mikilvægi Martins er gríðarlegt.vísir / anton

Þristaregn í þriðja leikhluta

Aðrir leikmenn tóku síðan sannarlega við sér, líkt og í fyrri hálfleik brugðust strákanir okkar mjög vel við mótlæti og fljótt voru þeir farnir að kaffæra Tyrkjum með þriggja stiga skotum.

Kári Jónsson og fleiri létu þristunum rigna í þriðja leikhluta.vísir / anton

Strákarnir eru líka skemmtikraftar og kunna að skapa stemningu, þeir skutu eiginlega engu nema þriggja stigum skotum undir lok þriðja leikhluta, stúkan var mjög ánægð með það.

Um að gera líka að láta vaða þegar þriggja stiga skotin eru að detta, sem þau gerðu og Ísland var með fimmtán stiga forystu eftir þriðja leikhlutann.

Sigldu sigrinum örugglega í höfn

Í fjórða leikhluta gerði Tyrkland heiðarlega tilraun til að minnka muninn, en liðið komst aldrei nálægt því íslenska og tókst ekki að gera sigurinn tvísýnan.

Ísland hélt áfram að spila sinn leik og sigldi sigrinum á endanum örugglega í höfn, 83-71.

Viðtöl

„Einn besti leikur sem við höfum spilað“

Craig Pedersen var sáttur með frammistöðu allra leikmanna.vísir / anton brink

„Stórkostlegur sigur. Extra sætur þar sem Ungverjaland vann Ítalíu. Mér fannst þetta einn besti leikur sem við höfum spilað, gríðarleg orka í öllum og allir sem komu inn af bekknum skiluðu sínu.

Það hjálpaði okkur að byrja sterkt, fengum fólkið í stúkunni með okkur strax og þau voru með orku á pöllunum allan leikinn. Sem er mjög mikilvægt fyrir okkur því við þrífumst á þessum stuðningi. Þetta var bara alveg frábært“ sagði landsliðsþjálfarinn Craig Pedersen fljótlega eftir leik.

„Það eru allir meðvitaðir um hversu góðir leikmenn Tyrklands eru. Við þurftum að bera virðingu fyrir þeirra liði og vissum að þeir gætu, og myndu, taka áhlaup.

Ég held að það hafi verið gott fyrir okkur að þeir hafi náð þessu áhlaupi undir lok fyrri hálfleiks, það vakti okkur aftur til lífsins og gerði okkur ljóst að þeir gætu skorað fullt af stigum á skömmum tíma. En frábært að sjá hvernig strákarnir brugðust við og spiluðu í seinni hálfleik,“ hélt hann svo áfram.

Martin Hermannsson og Tryggvi Hlinason sýndu og sönnuðu, enn og aftur, mikilvægi sitt fyrir íslenska liðið í kvöld. Martin var ekki með í síðasta verkefni í nóvember en spilaði mikið í báðum leikjum núna.

Craig tók undir og hrósaði þeim tveimur, en talaði einnig um mikilvægi annarra leikmanna liðsins.

„Það breytir heilmiklu fyrir okkur að hafa þá báða inni á vellinum. Auðvitað þurfa þeir líka sína hvíld og þeir sem komu inn stóðu sig líka stórkostlega. Eins og ég sagði áður, allir sem komu inn af bekknum skiluðu sínu, þeir voru ekki bara þarna til að gefa öðrum leikmönnum hvíld, þeir komu inn á gólfið og gerðu eitthvað.“

Myndaveisla frá fagnaðarlátunum

vísir / anton
vísir / anton
vísir / anton
vísir / anton
vísir / anton
vísir / anton

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira