Fótbolti

Arnór Ingvi skoraði tvö mörk í bikarsigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum í sænska bikarnum í dag.
Arnór Ingvi Traustason var á skotskónum í sænska bikarnum í dag. Getty/Julian Finney

Íslenski landsliðsmaðurinn Arnór Ingvi Traustason var heldur betur á skotskónum þegar Norrköping vann 4-2 sigur á Örebro í annarri umferð deildarhluta sænska bikarsins.

Íslendingarnir Arnór Ingvi og Ísak Andri Sigurgeirsson voru báðir í byrjunarliðinu í leiknum. Arnór skoraði tvö af mörkum síns liðs.

Ísak Andri fór af velli á 87. mínútu en Arnór Ingvi spilaði allan leikinn.

Norrköping hefur unnið tvo fyrstu leiki sína eins og GAIS. Liðin spila því úrslitaleik um sæti í átta liða úrslitunum.

Örebro kom í 1-0 strax á 12. mínútu með marki Lucas Shlimon en Arnór Ingvi jafnaði metin aðeins fimm mínútum síðar. Arnór Ingvi setti þá boltann í netið á fjærstönginni.

Fyrirliðinn Christoffer Nyman kom Norrköping yfir á 31. mínútu og bætti síðan við sínu öðru marki á 52. mínútu. 3-1 og staðan góð.

Örebro setti smá spennu í leikinn með því að minnka muninn á 84. mínútu þegar Karl Holmberg skoraði.

Norrköping tryggði sigurinn endanlega með fjórða markinu í uppbótartíma. Þar var að sjálfsögðu Arnór Ingvi aftur á ferðinni, hetja síns liðs í leiknum í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×