Salah skoraði fyrra mark Liverpool í leiknum á Etihad í gær og lagði það seinna upp fyrir Dominik Szoboszlai. Þrátt fyrir að febrúar sé ekki liðinn er Salah kominn með 25 mörk og sextán stoðsendingar í ensku úrvalsdeildinni og hefur því komið með beinum hætti að 41 marki í vetur.
„Þetta verður besta tímabil sem við höfum séð frá leikmanni. Það er engin spurning,“ sagði Carragher á Sky Sports eftir leikinn í gær.
Alan Shearer og Andy Cole hafa komið að flestum mörkum á einu tímabili í ensku úrvalsdeildinni, eða 47 en það var í 42 leikjum. Ef Salah heldur uppteknum hætti mun hann slá það met rækilega.
„Þetta snýst ekki bara um hvort hann kemst upp fyrir þessa leikmenn heldur mun hann hækka rána svo mikið að enginn mun ná þessu í framtíðinni. Við erum að upplifa eitthvað sérstakt,“ sagði Carragher.
„Hann hefur verið frábær síðan hann kom til Liverpool en þegar ég horfi á hann núna er hann óstöðvandi og hann kemst inn í hausinn á mótherjum sínum. Þegar þú spilar gegn einhverjum svona hugsarðu: Ég ætla að negla hann, fara í gegnum hann. Þú getur það ekki. Hann er eins og veggur,“ sagði Gary Neville.
Liverpool er með ellefu stiga forskot á toppi ensku úrvalsdeildarinnar þegar liðið á ellefu leiki eftir.