Erlent

Sakaður um að þiggja mútur fyrir að tala máli Rússa á Evrópu­þinginu

Kjartan Kjartansson skrifar
Nigel Farage, leiðtogi Umbótaflokksins, á ráðstefnu bandarískra íhaldsmanna. Fyrrverandi oddviti flokks hans í Wales sætir nú ákæru fyrir að þiggja mútur fyrir að dreifa áróðri Rússa.
Nigel Farage, leiðtogi Umbótaflokksins, á ráðstefnu bandarískra íhaldsmanna. Fyrrverandi oddviti flokks hans í Wales sætir nú ákæru fyrir að þiggja mútur fyrir að dreifa áróðri Rússa. Vísir/EPA

Fyrrverandi leiðtogi flokks Nigels Farage í Wales hefur verið ákærður fyrir að þiggja mútur fyrir að halda uppi áróðri Rússa um Úkraínu á Evrópuþinginu. Talsmaður flokksins segir manninn ekki lengur félaga í honum.

Nathan Gill kom fyrir dómara í Westminster til þess að svara fyrir ákæruna á hendur honum. Hann er sakaður um að hafa tekið við mútum í skiptum fyrir að styðja málflutning stjórnvalda í Kreml um atburði í Úkraínu í ræðum í Evrópuþinginu og í skoðanagreinum. 

Þetta á Gill að hafa gert þegar hann var Evrópuþingmaður fyrir Breska sjálfstæðisflokkinn (Ukip) og Brexit-flokkinn, forvera Umbótaflokks (e. Reform UK) Farage sem var helsti talsmaður útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, allt til ársins 2020.

Ákæruvaldið sagði að Gill hefði verið stöðvaður á Manchester-flugvelli á grundvelli hryðjuverkalaga í september 2021. Í kjölfarið fundust gögn í síma hans um að hann hefði verið í sambandi við úkraínskan stjórnmálamann sem hefði mútað honum til að segja tiltekna hluti á Evrópuþinginu, að því er kemur fram í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Yfirlýsingum hans á Evrópuþinginu hafi verið ætlað að koma Rússum til góða varðandi þá atburði sem þá áttu sér stað í Úkraínu. Úkraínski stjórnmálamaðurinn tilheyrði flokki á úkraínska þinginu sem er hallur undir Rússland.

Gill gengur laus gegn tryggingu en hann þurfti að skila vegabréfi sínu, má ekki ferðast erlendis og má ekki hafa samband við úkraínska stjórnmálamanninn.

Talsmaður Umbótaflokksins segir Gill ekki félaga í honum lengur. Gill leiddi flokkinn í kosningum til velska þingsins árið 2021. BBC segir ekki ljóst hvenær Gill hætti sem leiðtogi flokksins í Wales en það embætti hafi ekki verið til í einhvern tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×