Erlent

Öcalan vill leysa upp PKK

Atli Ísleifsson skrifar
Fulltrúar stjórnmálaflokks Kúrda, DEM, lásu upp yfirlýsingu Öcalan á blaðamannafundi í Istanbúl í dag.
Fulltrúar stjórnmálaflokks Kúrda, DEM, lásu upp yfirlýsingu Öcalan á blaðamannafundi í Istanbúl í dag. AP

Abdullah Öcalan, leiðtogi PKK, uppreisnarsamtaka Kúrda, vill að liðmenn þeirra leggi niður vopn og að samtökin verði leyst upp. Þetta kann að marka endalok átaka sem hafa staðið milli Kúrda og tyrkneskra stjórnvalda í um fjörutíu ár.

Liðsmenn PKK hafa um marga áratuga skeið háð vopnaða baráttu fyrir sjálfstæði Kúrda frá Tyrklandi.

Erlendir fjölmiðlar greina frá því að tilkynningin um að Öcalan vilji binda endi á átökin hafi komið á blaðamannafundi með liðsmönnum DEM, stjórnmálaflokks Kúrda í Tyrklandi, í Istanbúl í dag.

Sendinefnd með liðsmönnum DEM heimsóttu í dag Öcalan í fangelsið á eynni Imrali í Marmarasundi þar sem hann hefur setið í fangelsi frá árinu 1999.

Í tilkynningu frá DEM kemur fram að Öcalan hafi hvatt leiðtoga PKK til að koma saman og leysa upp samtökin. Þar er haft eftir Öcalan að hann hvetji liðsmenn PKK til að leggja niður vopn. Hann beri ábyrgð á ákvörðuninni.

Abdullah Öcalan hefur setið í fangelsið á eynni Imrali í Marmarasundi frá árinu 1999.AP

PKK stendur fyrir Verkamannaflokkur Kúrda og var stofnað á áttunda áratugnum og hafði það að markmiði að koma á sjálfstæði Kúrda í Tyrklandi. Bæði stjórnvöld í Bandaríkjunum og Evrópusambandinu skilgreina PKK sem hryðjuverkasamtök.

Rúmlega 40 þúsund manns hafa látið lífið í átökum uppreisnarsveita Kúrda og Tyrkja síðustu áratugi. Átökin stóðu hvað hæst á níunda og tíunda áratugnum.

Gerðar hafa verið fjölda tilrauna til að koma á vopnahlé, en það síðasta rann út um þúfur árið 2015.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×