Fótbolti

Segir Trump að hætta þessu bulli varðandi Kanada

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Jesse Marsch hefur fengið nóg af ruglinu í forseta Bandaríkjanna.
Jesse Marsch hefur fengið nóg af ruglinu í forseta Bandaríkjanna. AP Photo/Tony Gutierrez

Hinn bandaríski Jesse Marsch, þjálfari kanadíska landsliðsins í fótbolta, hefur sagt Donald Trump, forseta Bandaríkjanna, að hætta öllu rugli varðandi Kanada og að það eigi að vera 51. ríki Bandaríkjanna.

Hinn 51 árs gamli Marsch lék á sínum tíma tvo A-landsleiki fyrir Bandaríkin og hóf þjálfaraferil sinn sem aðstoðarþjálfari A-landsliðs karla. Þaðan fór hann til Montreal Impact og svo inn í Red Bull-samsteypuna.

Fyrst stýrði hann New York Red Bulls. Þaðan fór hann til RB Leipzig í Þýskalandi þar sem hann var aðstoðarþjálfari og svo til Austurríkis þar sem hann varð aðalþjálfari Red Bull Salzburg. Hann fór svo aftur til Leipzig árið 2021 en entist stutt.

Frá 2022-23 var Marsch þjálfari Leeds United á Englandi. Eftir að vera látinn taka poka sinn þar gerðist hann landsliðsþjálfari Kanada. Hann verður að öllum líkindum þjálfari liðsins fram yfir HM sem fram fer á næsta ári.

„Þessi alþjóðlegu mót þýða nú eitthvað annað og meira fyrir Kanada,“ sagði þjálfarinn. Gullbikar CONCACAF (e. Gold Cup) mun fara fram í Bandaríkjunum og Kanada síðar í ár. Þá fer heimsmeistaramót karla að sjálfsögðu fram í Bandaríkjunum, Kanada og Mexíkó á næsta ári.

Marsch vildi ræða þetta þar sem hann væri nú sjálfur Bandaríkjamaður en hefði kynnst Kanada á eigin skinni undanfarið.

„Finnst þessi umræða óþægileg og hreinlega skammarleg. Kanada er sterk og sjálfstæð þjóð þar sem háttprýði er í hávegum höfð. Kanada er jafnframt land sem metur siðferði og virðingu. Það er eitthvað annað en klofið, dónalegt og nú oft hatursfullt loftslag Bandaríkjanna.“

Sjá einnig: Ítrekar að honum er alvara um Kanada

„Ef ég ætti að senda forsetanum ein skilaboð þá væri það að hætta þessari fáránlegu orðræðu um að Kanada ætti að vera 51. ríki Bandaríkjanna. Sem Bandaríkjamaður skammast ég mín fyrir hrokann og skeytingarleysið sem við höfum sýnt einum af okkar elsta, sterkasta og hliðhollasta bandamanni,“ sagði Marsch og hélt áfram.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×