Skoðun

Kol­brún Páls­dóttir – Öflugur leið­togi fyrir Há­skóla Ís­lands

Ágúst Arnar Þráinsson og Kolbrún Lára Kjartansdóttir skrifa

Eftir að hafa kynnst Kolbrúnu Pálsdóttur í gegnum okkar eigin náms- og starfsár í Háskóla Íslands, erum við sannfærð um að hún sé rétti leiðtoginn til að stýra skólanum inn í framtíðina. Hún hefur verið námsbrautarformaður tómstunda- og félagsmálafræði og einnig sviðsforseti Menntavísindasviðs. Á báðum þessum vettvöngum höfum við upplifað hana sem metnaðarfulla, framsækna og góðan stjórnanda.

Kolbrún er leiðtogi sem leggur sig fram um að hlusta og skapa vettvang fyrir ólíka hópa innan háskólasamfélagsins. Á fundum þar sem stjórn Menntavísindasviðs kemur saman hefur hún tryggt að fulltrúar nemenda hafi greiðan aðgang að fundunum og að þeirra rödd og skoðanir séu teknar með þegar ákvarðanir á sviðinu hafa verið teknar. Þegar við störfuðum sem fulltrúar og starfsmenn innan HÍ fundum við skýrt fyrir því að hún var bandamaður og talskona þess að háskólasamfélagið væri opið og aðgengilegt fyrir alla. Hún skilur mikilvægi fjölbreytileika í menntun og hefur sýnt í verki að hún vinnur af heilindum að því að gera háskólann að betri stað fyrir nemendur og starfsfólk.

Kolbrún er öflugur kennari og hefur lagt mikið upp úr því að leyfa nemendum að njóta sín. Hún er stjórnandi sem skilur nemendalýðræði og virðir það. Framtíð Háskóla Íslands kallar á forystu sem sameinar stefnumótandi hugsun, réttlætiskennd og raunverulega skuldbindingu við framfarir í kennslu og rannsóknum. Kolbrún Pálsdóttir býr yfir öllum þessum eiginleikum. Hún hefur skýra framtíðarsýn og dýrmæta reynslu sem mun nýtast vel í embætti rektors.

Við styðjum Kolbrúnu Pálsdóttur eindregið til rektors og hvetjum aðra til að gera slíkt hið sama. Með hana við stjórnvölin mun Háskóli Íslands þróast í átt að enn sterkari, réttlátari og framsæknari stofnun sem þjónar samfélaginu af krafti.

Ágúst Arnar Þráinsson er meistaranemi á Menntavísindasviði

Kolbrún Lára Kjartansdóttir er meistaranemi og fyrrum sviðsráðsforseti á Menntavísindasviði




Skoðun

Sjá meira


×