Skoðun

Magnús Karl hefur hags­muni háskóla­nema í fyrir­rúmi

Hópur þriðja árs nema í læknisfræði við HÍ skrifar

Nú fer senn að líða að rektorskosningum við Háskóla Íslands þar sem margir hæfir frambjóðendur keppast um embættið. Það er nemendum við Háskóla Íslands mikilvægt að hafa öflugan rektor sem málsvara námsins og því teljum við, nemendur á þriðja ári við læknadeild, Magnús Karl Magnússon vera bestan til þess fallinn að gegna þessu mikilvæga hlutverki.

Núna í haust vorum við svo heppin að fá að sitja kennslustundir í lyfjafræði hjá honum Magnúsi, og fengum að upplifa af eigin raun einstaka ástríðu hans fyrir kennslu. Það var alltaf einstaklega skemmtileg upplifun að sitja í tíma hjá Magnúsi og fylgjast með honum fjalla um og nálgast námsefnið á fjölbreyttan og fróðlegan hátt. Sérlegur áhugi hans á námsefninu átti það þó til að draga hann út fyrir efnið, en það var einmitt skemmtilegasti hluti kennslunnar. Magnús var ætíð duglegur að virkja nemendur í tíma sem blés lífi í kennsluna og áhugi hans á námsefninu smitaði út frá sér til nemenda sem sýndi sig einna best í mætingu, en tímar hjá honum voru alltaf vel setnir.

Magnús hvatti okkur til endurgjafar á kennslunni sem og fyrirkomulagi námsins og tók gagnrýni nemenda með opnum örmum, með það að markmiði að bæta kennslu og upplifun nemenda. Það sem við mátum þó hvað mest var að hann lét sér það ekki nægja að hlusta, heldur tók hann höndum saman og gerði raunverulegar breytingar í takt við endurgjöf nemenda.

Eins mikill missir og það er að Magnús Karl láti af kennslustörfum, þá erum við sannfærð um að hann muni einsetja sér það að hafa hagsmuni allra háskólanema í fyrirrúmi og að hæfileikar hans muni nýtast enn frekar í embætti rektors.

Höfundar eru þriðja árs nemar í læknisfræði við Háskóla Íslands.




Skoðun

Sjá meira


×