Sport

Skraddarinn segir sorrí: „Mun sjá eftir þessu ævi­langt“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Adrian Livelten viðurkenndi að hafa haft rangt við í skíðastökksskandalnum.
Adrian Livelten viðurkenndi að hafa haft rangt við í skíðastökksskandalnum. ntb/Geir Olsen

Adrian Livelten, skraddari norsku skíðastökkvarana, hefur beðist afsökunar á þætti sínum í saumaskandalnum sem skekur skíðaheiminn.

Tveimur norskum skíðastökkvurum, Marius Lindvik og Johan André Forgang, var vikið úr keppni á HM eftir að upp komst að Norðmenn hefðu sett auka stífari saum í búninga þeirra en heimilt er samkvæmt reglum Alþjóða skíðasambandsins (FIS).

Landsliðsþjálfarinn Magnus Brevig játaði sök og var settur af sem og Livelten. Brevig baðst afsökunar í viðtölum við norska fjölmiðla og Livelten segist vera fullur eftirsjár í yfirlýsingu frá norska skíðasambandinu.

„Ég vil biðja Marius og Johan afsökunar. Ég mun sjá eftir þessu ævilangt. Það sem við gerðum við búningana hefði aldrei átt að gerast. Ég bið styrktaraðila, skíðastökksfjölskylduna og norsku þjóðina afsökunar,“ er haft eftir Livelten í yfirlýsingunni.

„Við höfum alltaf gert það sem við getum til að gera búningana sem besta innan ramma laganna en það er óásættanlegt að svindla.“

Livelten segist sætta sig við refsingu sína og hann muni vera samvinnuþýður við rannsókn FIS á málinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×