Glazer-fjölskyldan, sem enn er stærsti eigandi Manchester United, hefur ekki beint verið vinsæl meðal stuðningsmanna félagsins undanfarin ár. Glazerarnir keyptu félagið árið 2005 og síðan árið 2013 hefur félagið jafnt og þétt verið að falla aftur úr stærstu liðum Evrópu.
Stuðningsmenn Manchester United hafa margir hverjir kallað eftir því að Glazer-fjölskyldan hverfi á brott og að nýir aðilar taki við eignarhaldi félagsins.
Sir Jim Ratcliffe keypti hluta í félaginu á síðasta ári og hefur ráðist í ýmsar breytingar innan klúbbsins. Breytingar snúa margar hverjar að niðurskurði og hafa nokkrar ákvarðanir hans farið öfugt ofan í stuðninsmenn liðsins. Ef marka má orð Ratcliffes var þó nauðsynlegt að ráðast í niðurskurði.
Ákvarðanir hans hafa þó eins og áður segir ekki endilega allar verið vinsælar. Hann segist geta tekið gagnrýninni um stund, en að ef að hann fær sömu meðferð og Glazer-fjölskyldan þá muni hann á endanum gefast upp.
„Ég get lifað með þessu um stund. Ég læt það ekki á mig fá að vera óvinsæll, því ég skil það vel að stuðningsmennirnir vilja ekki sjá Manchester United á þeim stað þar sem félagið er núna,“ sagði Ratcliffe í samtali við BBC.
„Ef ég kalla fram smá reiði þá get ég lifað með því. En ég er ekkert öðruvísi en annað venjulegt fólk. Þetta er ekki skemmtilegt. Sérstaklega ekki fyrir vini mín og fjölskyldu.“
„Þannig að ef þetta nær þeim hæðum sem Glazer-fjölskyldan hefur mátt þola þá myndi ég á endanum gefast upp, segja: „Nú er nóg komið,“ og leyfa einhverjum öðrum að taka við.“