Lífið

Þurfi að stappa stálinu í unga karla en ekki tala þá niður

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Beggi Ólafs fer um víðan völl með Sölva Tryggva.
Beggi Ólafs fer um víðan völl með Sölva Tryggva.

Bergsveinn Ólafsson segist hafa verið óttasleginn og einmana fyrst þegar hann flutti til Bandaríkjanna. Beggi Ólafs segir í podcasti Sölva Tryggvasonar, að hann hafi komið sér vel fyrir á Íslandi, með háar tekjur í stjórnendaþjálfun, fyrirlestrum og hlaðvarpsgerð. Hann ákvað upphaflega að halda sér innan þægindarammans, en fljótlega var eitthvað innra með honum sem fann að hann yrði að láta vaða.

„Ástæðan fyrir því að ég fór var að ég vildi prófa mig áfram á stærri leikvelli og sjá hvert það myndi taka mig. Ég vó kosti og galla og hugsaði mig vel um. En ef maður spólar lífið áfram er gott að hugsa: „Hvað væri betri saga að segja.“ Þegar ég gerði það komst ég að því að það yrði betri saga að hafa tekið stökkið. En ég vissi ekki að þetta yrði svona ógeðslega erfitt í byrjun. Egó-ið mitt átti mjög erfitt fyrst um sinn. Ég var í þeirri stöðu að vera með mjög góðar tekjur og fá mjög mikið af viðurkenningu fyrir það sem ég var að gera á Íslandi,“ segir Beggi. 

Ræddi við fólkið á kaffihúsinu

„En þegar ég kom út var ég bara einn og enginn þekkti mig og engin tækifæri önnur en að vera á skólabekk. Það var enginn að biðja mig um að halda fyrirlestra, þjálfa sig eða neitt annað. Ég þurfti bara að kyngja því að vera venjulegur nemandi og spyrja mig hvort það sem ég væri að gera skipti einhverju máli. Svo var líka mjög erfitt að komast í einhverja rútínu og það erfiðasta að finna mitt fólk og félagsnet. Það tók mig níu mánuði og ég var mjög einmana fyrst. Það sem hélt mér gangandi var að mæta upp úr klukkan fimm á hverjum morgni á kaffihúsið sem var næst mér um leið og það opnaði og eiga fimm til tíu mínútna spjall við fólkið sem vann á kaffihúsinu. Þessi litlu tengsl hjálpuðu mér og svo byggði ég ofan á það og ég er núna umvafinn fólki sem ég vil vera í kringum,” segir Beggi, sem rifjar í þættinum upp aðdragandann að því að hann fór út.

„Það kviknaði mikill ótti hjá mér þegar mér var boðið í doktorsnámið í Bandaríkjunum og fyrsta ákvörðunin hjá mér var að hafna því og vera áfram á Íslandi. En það sat ekki vel með mér og þegar ég tjáði vinum mínum og fjölskyldu frá þeirri ákvörðun var ég innst inni að vona að þau segðu mér að það væri röng ákvörðun og að ég ætti að stökkva á að fara út. Eftir það vissi ég að ég yrði að stökkva út í óvissuna. Það eina sem ég vissi þegar ég ákvað að fara var að ég hefði flugmiða og að ég væri að fara að byrja í doktorsnámi.“

Enn að læra nýja hluti

„Það kom tímabil þar sem ég saknaði Íslands og hlutanna sem ég var að gera heima, en ég er kominn á þann stað núna að mér finnst lífið mitt í Los Angeles alveg frábært. Það var stórt stökk að fara út og erfitt að hætta að gera hlutina sem ég gerði á Íslandi og þurfa að byrja að klífa fjallið alveg frá byrjunarreit aftur fyrst þegar ég kom út. Það tók mig tíma að aðlagast og efla félagsnetið, en eftir því sem tíminn líður kann ég alltaf betur og betur við mig. Mig hafði alltaf langað að kynnast annarri menningu og búa annars staðar en á Íslandi til að þroskast og reyna meira á mig. Ég er ennþá stanslaust að læra eitthvað nýtt.“

Beggi og Sölvi ræða í þættinum um pólariseringu í Bandaríkjunum og hvernig staðan er eftir kosningarnar í lok síðasta árs.

„Það er ekki þannig að allir í Bandaríkjunum séu annað hvort mjög hrifnir af Trump, eða hafi fundist Kamala Harris frábær. Auðvitað upplifi ég mest skoðanir þeirra sem ég er í kringum, en mjög margir sem ég er í kringum sáu þetta þannig að það væru tveir slæmir kostir í boði. Ég upplifi stöðuna þannig að fólk sé almennt opið gagnvart því að mega hafa ólíkar skoðanir og þetta sé ekki jafn svarthvítt og við höldum á Íslandi. Auðvitað eru miklar tilfinningar í ákveðnum málum, en það sem við sjáum í fjölmiðlum eru pólarnir í báðar áttir og það endurspeglar ekki endilega venjulegt fólk í Bandaríkjunum. Það sem við sjáum á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum er mjög oft ýktasta fólkið og ýktustu skoðanirnar í báðar áttir.“

Karlmennska sé dyggð

Beggi hefur í gegnum tíðina nokkrum sinnum rætt opinberlega um karlmennsku og þá hefur ákveðinn hópur í samfélaginu risið upp á afturlappirnar og gagnrýnt málflutning hans.

„Mér finnst margt vera að breytast núna og ég held að það sem ég var að segja eldist vel. Ég stend við það sem ég sagði og myndi segja það aftur. Það kom tímabil þar sem það var eins og það mætti ekki hvetja unga karlmenn til dáða og að karlmennska væri dyggð. Það getur ekki verið eðlilegt að einu skilaboðin sem ungir karlmenn fá sé að þeir verði að breyta sér og að annar hver karlmaður sé eitraður. Mikið af ungum karlmönnum eru að basla og þurfa á því að halda að stálinu sé stappað í þá, en ekki að það sé stanslaust verið að tala þá niður. Ég vil að við sendum þau skilaboð út í samfélagið að karlmennska sé dyggð og það sé jákvætt að vera sterkur og taka ábyrgð, hafa sýn á framtíðina og sterkan tilgang,“ segir Beggi, sem segist lifa eftir því móttói að segja það sem hann hugsar og segja satt.

„Þú þarft ekki stöðugt að reyna að muna hvað þú segir ef þú segir bara satt. Það getur vel verið að það mislíki það einhverjum, en þá veit fólk allavega hvar það hefur þig og það fylgir því mikið frelsi að vera heiðarlegur. Það er ákveðið ævintýri að þora að segja sinn sannleika opinberlega og sleppa tökum af því hvað fólki finnst um það. Samfélagið yrði mjög furðulegt og vont ef allir væru alltaf sammála.“

Hægt er að nálgast viðtalið við Begga og öll viðtöl og podköst Sölva Tryggvasonar inni á solvitryggva.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.