Erlent

Yfir 235 létust í á­rásum Ísraels á Gasa í nótt

Hólmfríður Gísladóttir skrifar
Unnið var að því í nótt að safna saman líkamsleifum þeirra sem létust í árásunum. Á fréttaveitum má finna fjölda mynda sem sýna börn og fullorðna komið fyrir í líkhúsum.
Unnið var að því í nótt að safna saman líkamsleifum þeirra sem létust í árásunum. Á fréttaveitum má finna fjölda mynda sem sýna börn og fullorðna komið fyrir í líkhúsum. AP/Abdel Kareem Hana

Yfir 235 eru sagðir hafa látist í árásum Ísraelshers á Gasa í nótt en tölurnar byggja á upplýsingum frá sjö heilbrigðisstofnunum á svæðinu.

AFP hefur eftir heimildarmönnum innan Hamas að hershöfðinginn Mahmud Abu Watfa, sem fór fyrir innanríkisráðuneyti Hamas á Gasa, hafi verið drepinn í árásunum. Abu Watfa var yfir löggæslu- og öryggismálum á svæðinu.

Samkvæmt hernum var um að ræða árásir á skotmörk tengd Hamas en Benjamin Netanyhu forsætisráðherra sagðist hafa fyrirskipað þær vegna tafa við samningaborðið. Ekkert hefur þokast í viðræðum um annan fasa vopnahlésins en óljóst að það sé alfarið við Hamas að sakast.

Netanyahu ásakaði Hamas hinsvegar um að hafa ítrekað hunsað kröfur Ísraelsmanna um að láta þá gísla sem enn eru í haldi samtakanna lausa og um að hafna tillögum Bandaríkjamanna.

Hamas samtökin hafa fyrir sitt leyti sagt að árásirnar séu klárt brot á vopnahléinu og stofni lífi gíslanna í hættu. Háttsettur Hamas liði sagði árásirnar jafngilda „dauðadómi“ fyrir gíslana og þá sagði í yfirlýsingu í morgun að þær væru ekki annað en tilraunir Netanyahu til að bjarga brothættu ríkisstjórnarsamstarfi.

Búist er við því að árásirnar, sem voru meðal annars gerðar á Gasa borg, Deir al-Balah, Khan Younis og Rafah, muni halda áfram næstu daga. 

Bandaríkjamenn hafa staðfest að hafa fengið upplýsingar um árásirnar fyrirfram. Hamas hefðu getað látið gísla lausa til að framlengja vopnahléið en hafi þess í stað neitað og valið áframhaldandi stríð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×