Kúveit endaði í 27. sæti á heimsmeistaramótinu í janúar, tveimur sætum fyrir ofan Barein. Aron hefur stýrt bareinska landsliðinu nánast samfleytt frá 2018 og kom því meðal annars á Ólympíuleikana í Tókýó.
Aron hefur komið víða við á þjálfaraferlinum. Auk Bareins og Kúveits hefur hann stýrt íslenska landsliðinu, Haukum á Íslandi, Skjern, Kolding og Álaborg í Danmörku og Hannover-Burgdorf í Þýskalandi.
Kúveitar voru með á HM í janúar, í fyrsta sinn í sextán ár. Þeir töpuðu öllum leikjunum sínum í riðlakeppninni en unnu þrjá af fjórum leikjum sínum í Forsetabikarnum.
Bareinar enduðu í 29. sæti á síðasta mótinu undir stjórn Arons. Á ýmsu gekk á meðan HM stóð sem og í undirbúningnum eins og Aron lýsti í samtali við íþróttadeild.
„Það var ýmislegt sem ég var ósáttur með. Ég sagði vinstri og í einhverjum tilfellum fóru þeir þá til hægri í staðinn fyrir að gera það sem að ég bað um. Ég var ekkert sérstaklega ánægður með það,“ sagði Aron meðal annars.