Erlent

Áttu „af­kasta­mikið“ fyrsta sam­tal eftir fundinn spennuþrungna

Sólrún Dögg Jósefsdóttir skrifar
Forsetarnir tveir áttu kuldaleg og spennuþrungin orðaskipti á fundi í lok febrúar. 
Forsetarnir tveir áttu kuldaleg og spennuþrungin orðaskipti á fundi í lok febrúar.  AP/Mystyslav Chernov

Donald Trump Bandaríkjaforseti og Volodímír Selenskí forseti Úkraínu sammæltust um að vinna saman að því að binda endi á stríðið við Rússa í klukkutíma löngu símtali í dag. Í tilkynningu frá Hvíta húsinu þess efnis segir að símtalið hafi gengið „stórkostlega“.

Símtalið var fyrsta samtal forsetanna tveggja eftir spennuþrunginn fund þeirra og J.D. Vance varaforseta Bandaríkjanna þann 28. febrúar síðastliðinn. Á honum sökuðu fulltrúar Bandaríkjanna Selenskí um vanþakklæti og virðingarleysi. 

Í tilkynningunni segir að í símtalinu hafi Selenskí þakkað Trump fyrir stuðning Bandaríkjamanna. Þá hafi þeir sammælst um að senda erindreka sína til fundar í Sádí-Arabíu á næstu dögum. Að auki hafi Selenskí beðið Trump um aukinn stuðning við varnir gegn loftárásum Rússa og Trump heitið því að aðstoða hann.

Í símtalinu hafi Trump jafnframt sagt Selenskí frá því sem fór hans og Pútín Rússlandsforseta á milli í símtali í vikunni. Í því símtali hafnaði Pútín tillögu um þrjátíu daga vopnahlé, sem Trump hafði lagt fram og Úkraínumenn samþykkt. Þó hafi Pútín samþykkt að hlé yrði gert á árásum á orkuinnviði. 

Hléið virðist hafa staðið skammt yfir en í dag sögðu Rússar Úkraínuher hafa skotið á olíubirgðastöð í suðurhluta Rússlands meðan Úkraínumenn sökuðu Rússa um loftárásir á sjúkrahús. 

Selenskí lýsti símtalinu við Trump sem jákvæðu og einlægu. Þeir væru sammála um að halda áfram að beita sér fyrir tafarlausu vopnahléi. 

„Eitt fyrsta skrefið í átt að stríðslokum gæti verið að hætta öllum árásum á orkuinnviði og aðra innviði. Ég studdi þetta skref og Úkraína samþykkti að við erum reiðubúin að framkvæma það,“ skrifaði Selenskí að símtalinu loknu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×