Hauks og sjö félaga hans úr björgunarsveitinni á Dalvík var saknað eftir að þeir lentu skyndilega í glórulausu ofsaveðri í 20 stiga frosti 1.250 metra hæð á Nýjabæjarfjalli í Eyjafirði árið 1998.
Þáttinn má sjá hér:
Aðstandendur földu sig fyrir lögreglunni
„Frostið var það mesta sem ég hef fundið. Þegar maður var orðinn blautur og kaldur þá hálfpartinn meiddi maður sig í beinunum,“ segir Haukur.
Mennirnir lágu hver um annan þveran í snjóhúsi sem var ekki nema um 60 sentimetrar á hæð – svangir, kaldir, blautir og óttaslegnir.
„Við lágum næstum því hver ofan á öðrum,“ segir Haukur. „
Við vorum týndir björgunarsveitarmenn. Þetta fékk á mann.
Hann fór út í frosthríðina um stund til að létta á sér en þá gerðist þetta:
„Þá finn ég að gallinn frýs fastur eins og steypa. Allur blautur. Svo þegar ég ætlaði inn í snjóhúsið þá fann ég það ekki.“
Eftir erfiða nótt voru þrír sendir af stað til að láta vita og leita hjálpar. Á leiðinni voru þeir svo úrvinda að þeir sofnuðu ítrekað eftir að hafa lagst fyrir. Þegar langur tími leið fóru fimmmenningarnir í snjóhúsinu að óttast þeir hafi lent í snjóflóði.
„Það var helvíti strembið,“ segir Haukur.
Þegar þremenningarnir komu til byggða og fréttir bárust svo til Dalvíkur um hvar fimmmenningarnir héldu sig þá földu sumir aðstandendur sig fyrir lögreglunni:
„Það á að tilkynna okkur að þeir séu dánir. Ég óð inn í stofu og reyndi að fela mig eins og barn. Lögreglumaðurinn má ekki sjá mig,“ segir Rúna Sigurðardóttir, eiginkona Hauks í þættinum.