Lítill tími milli leikja
„Auðvitað mikilvægt að slaka aðeins á og endurheimta orkuna eftir fyrri leikinn. Lítill tími milli leikja. Dagurinn í dag fór í undirbúning fyrir leikinn og auðvitað erum við með í huga allt sem við hefðum getað gert betur og það sem við gerðum vel. Mikilvægt að nota þessa tvo daga milli leikja eins vel og við getum“ sagði Orri Steinn í viðtali sem Aron Guðmundsson tók eftir blaðamannafund Íslands fyrr í dag.
Yfir þúsund Íslendingar styðja strákana
„Það lætur manni auðvitað líða vel og við hlökkum til að sjá alla Íslendingana. Auðvitað leiðinlegt að geta ekki verið á Íslandi en mér finnst við vera að gera það besta úr þessu og við hlökkum til að fá góðan stuðning“ sagði Orri um stuðninginn sem strákarnir munu fá í stúkunni.
Þurfa að sækja sigurinn
Ísland er marki undir eftir 2-1 tap í fyrri leiknum úti í Kósovó, sem þýðir að Ísland mun þurfa að sækja til sigurs á morgun ef liðið ætlar ekki að falla niður í C-deild Þjóðadeildarinnar.
„Við þurfum að skora. Við þurfum að sækja sigurinn en við þurfum líka að verjast vel. Gera alla hlutina vel, verjast og sækja, pressa og við þurfum að þora“ sagði Orri að lokum.
Viðtalið við Orra má sjá í heild sinni hér fyrir ofan. Seinni leikur Íslands og Kósovó í umspili fyrir sæti í B-deild Þjóðadeildarinnar verður sýndur í opinni dagskrá á Stöð 2 Sport á morgun, sunnudag, og hefst klukkan fimm. Upphitun fyrir leikinn hefst hálftíma fyrr.