Körfubolti

Evans farinn frá Njarð­vík

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Evans Ganapamo er landsliðsmaður Mið-Afríkulýðveldisins og gekk til liðs við Njarðvík í desember síðastliðnum.
Evans Ganapamo er landsliðsmaður Mið-Afríkulýðveldisins og gekk til liðs við Njarðvík í desember síðastliðnum. vísir

Evans Ganapamo hefur yfirgefið herbúðir Njarðvíkur fyrir lokaumferðina og úrslitakeppnina sem framundan er í Bónus deild karla. Rúnar Ingi Erlingsson, þjálfari liðsins, segir bæði körfuboltalegar og ekki körfuboltalegar ástæður spila þar inn í en um sameiginlega ákvörðun sé að ræða.

Rúnar staðfesti brottför hans í hlaðvarpinu Endalínan í dag. Umræðan kom upp þegar Rúnar var að ræða mögulega andstæðinga Njarðvíkur í úrslitakeppninni og nefndi Keflavík sem dæmi um lið sem myndi ekki endilega henta Njarðvíkingum vel að mæta.

Hann var þá spurður hvort rétt væri að hann hefði látið „Keflavíkurbanann“ fara en Evans átti stórleik gegn Keflavík í janúar og skoraði 44 stig.

„Já, hann er farinn heim, það er svoleiðis… Eiginlega sameiginleg ákvörðun, ég var svosem ekkert að reyna að ýta honum í burtu, þannig bara var það. Bæði körfuboltalegt og ekki körfuboltalegt sem að kemur þar inn í.“

Rúnar Ingi er þjálfari Njarðvíkur, sem stefnir á að stela öðru sætinu af Stjörnunni með sigri í Garðabænum lokaumferðinni. vísir

Evans Ganapamo spilaði tólf leiki fyrir Njarðvíkinga frá því að hann kom til liðsins í desember. Besti leikur hans var gegn Keflavík, þar sem hann var valinn leikmaður umferðarinnar. Að meðaltali var hann með sextán stig, fjögur fráköst og eina stoðsendingu í leik.

Baginski á batavegi og gæti spilað í úrslitakeppninni

Njarðvíkingar hafa saknað framherjans Maciek Baginski nánast allt tímabilið en hann er, samkvæmt Rúnari, farinn að æfa aftur og gæti tekið þátt í leikjum í úrslitakeppninni.

Maciej Stanislaw Baginski er þrítugur reynslubolti og einn leikjahæsti leikmaður Njarðvíkur frá upphafi.

„Hann er búinn að vera svolítið með í fjórir á móti fjórum, en er aðeins farinn að ýta sér lengra og var með í gær í smá fimm á fimm upp og niður. Hver veit nema að Baginski gæti komið inn í úrslitakeppninni og leyst einhverjar mínútur“ sagði Rúnar í þættinum sem má finna í heild sinni hér fyrir neðan. Umræðan um Evans Ganapamo hefst eftir 53 mínútur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×