Segulljós, sem nefnast norðurljós á norðurhveli jarðar, eru vel þekkt á hinum gasrisunum í sólkerfinu: Júpíter, Satúrnusi og Úranusi. Erfitt hefur hins vegar reynst að ná myndum og staðfesta að segulljós myndist á Neptúnusi, ystu reikistjörnunni í sólkerfinu.
James Webb-geimsjónaukanum tókst að fanga segulljósin á myndum sem hann tók af Neptúnusi í júní 2023. Þau sjást sem blágrænar klessur á heiðbláum bakgrunni ísrisans, að því er kemur fram í tilkynningu á vef Evrópsku geimstofnunarinnar.
Ólíkt jörðinni eru segulljósin á Neptúnusi ekki bundin við póla reikistjörnunnar og nágrenni þeirra. Þegar bandaríska geimfarið flaug fram hjá henni árið 1989 kom í ljós að segulskaut Neptúnusar hallast um 47 gráður miðað við snúningsás hans. Segulljósin dansa því um miðlægar breiddargráður á reikistjörnunni.
Kuldinn talinn skýra hvers vegna segulljósin fundust svo seint
Athuganir Webb gerðu stjörnufræðingum einnig kleift að mæla hitann í efstu lögum lofthjúpsins á Neptúnusi. Í ljós kom að hann hefur fallið um hundruð gráða frá því að Voyager 2 átti leið hjá fyrir 36 árum. Kólnunin er sögð skýra hvers vegna segulljós á Neptúnusi hafa reynst svo hverful. Meiri kuldi er talinn leiða til daufari segulljósa.
Vísindamenn vilja nú nota Webb til þess að rannsaka Neptúnus í gegnum heila svonefnda sólarsveiflu. Virkni sólar gengur í gegnum ellefu ára sveiflur sem tengjast segulsviði hennar. Með þeim athugunum vonast þeir til þess að skilja betur uppruna segulsviðsins á Neptúnusi og mögulega hvers vegna það hallar svo mikið miðað við snúningsásinn.
Segulljós myndast þegar hlaðnar agnir frá sólinni rekast á frum- og sameindir í lofthjúpi. Agnirnar ferðast í átt að segulskautunum sem eru nærri pólsvæðunum á jörðinni og því verða segulljós fyrst og fremst sýnileg á norðlægum og suðlægum slóðum.
Norðurljós á jörðinni eru mun þekktari en suðurljósin, ekki vegna þess að þau fyrrnefndu séu virkari en þau síðarnefndu heldur vegna þess að mun auðveldara er að berja þau augum á norðurhveli en suðurhveli. Suðursegulskautið er þannig yfir Suður-Íshafinu en norðursegulskautið yfir norðanverðu Kanada. Mun meiri landmassi og mannfjöldi er á norðurslóðum en á suðurslóðum.