Erlent

Alba­nese boðar til þing­kosninga

Atli Ísleifsson skrifar
Anthony Albanese hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ástralíu frá árinu 2022.
Anthony Albanese hefur gegnt embætti forsætisráðherra Ástralíu frá árinu 2022. AP

Forsætisráðherra Ástralíu hefur boðað til þingkosninga í landinu og munu kjósendur þar ganga að kjörborðinu þann 3. maí næstkomandi.

Miklar deilur hafa að undanförnu staðið um hvernig Ástralir ætli sér að standa við gefnar skuldbindingar í loftslagsmálum, stefnu í orkumálum og sömuleiðis háan framfærslukostnað ástralsks almennings. Líklegt þykir að þessi mál muni einkenna kosningabaráttuna sem framundan er.

Anthony Albanese gekk á fund landshöfðingjans Sam Mostyn, sem er fulltrúi þjóðhöfðingjans Karls Bretakonungs í Ástralíu, fyrr í dag og óskaði þar formlega eftir heimild fyrir því að rjúfa þing og boða til þingkosninga.

Ástralskur almenningur hefur mikið fundið fyrir hárri verðbólgu og háum stýrivöxtum síðustu misserin auk þess að miklar deilur hafa staðið um stöðu húsnæðismarkaðarins.

Peter Dutton er leiðtogi Frjálslynda flokksins sem er stærsti flokkurinn í stjórnarandstöðu.AP

Í loftslagsmálum hafa bæði Verkamannaflokkur Albanese og Frjálslyndi flokkurinn, sem er stærstur í stjórnarandstöðu, heitið því að gera Ástralíu kolefnishlutlaust fyrir árið 2050 en deila þó um hvernig þeim markmiðum skuli náð. Verkamannaflokkurinn talar fyrir því að leggja skuli aukinn þunga í framleiðslu sólar- og vindorku til að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis. Frjálslyndi flokkurinn vill hins vegar ráðast í smíði sjö ríkisrekinna kjarnorkuvera til að mæta orkuþörf landsins.

Verkamannaflokkurinn er nú með 77 þingmenn af þeim 151 sem sæti eiga í neðri deild ástralska þingsins. Albanese hefur gegnt embætti forsætisráðherra frá árinu 2022 þegar hann tók við af Scott Morrison, þáverandi formanni Frjálslynds flokksins. Kjörtímabilið í Ástralíu er þrjú ár.

Skoðanakannanir benda til þess að margir eru óánægðir með störf Albanese, en vinsældir hans eru álíka miklar og Peter Dutton, núverandi formanns Frjálslynds flokksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×