Eldflaugum var miðað á hús í suðurhluta Beirút og er talið að í húsinu hafi verið stór bíll og drónar í eigu Hezbollah sem eru samtök í Líbanon sem studd eru af Íran.
Ísraelsher varaði við árásinni með færslu á samfélagsmiðlinum X og tveimur minni dróna árásum samkvæmt umfjöllun The Guardian. Íbúum var sagt að vera í að minnsta kosti þrjú hundruð metra fjarlægð frá tilgreindu húsi í færslunni. Þá voru einhverjir íbúar á svæðinu sem skutu byssum upp í loftið til að vara aðra við.
Fyrr í morgun tilkynnti Ísrael að þeir hefðu stöðvað tvær eldflaugar frá Líbanon og væri það annað skipti í þessari viku. Enginn hefur tekið ábyrgð á því að hafa sent eldflaugarnar.
Átök milli Ísraelshers og Hezbollah hófust degi eftir árás Hamas í Ísrael þann 7. október 2023 þegar Hezbollah-liðar skutu eldflaugum að Ísrael. Um ári seinna, 1. október 2024, réðust Ísraelsmenn inn í Líbanon. Vopnahlé náðist á milli ríkjanna 27. nóvember það sama ár.
Tæplega fjögur þúsund manns létust í átökunum og um milljón manns þurfti að flýja heimili sín í Lebanon.