Hin 39 ára gamla Valgerður hefur oftar en ekki þurft að æfa ein hér heima en nú er hún komin að hjá hnefaleikafélagi á Englandi þar sem hún getur æft með fleiri öflugum konum.
„Ég er komin með tvo nýja þjálfara þar í flottum, nýlegum klúbbi. Ég hafði samband við þá í nóvember og þeir sögðust strax ætla að taka mig,“ segir Valgerður kát.
Þetta skref hefur strax borið ávöxt því Valgerður fær bardaga á Englandi í lok næstu viku. Hún býr enn heima á Íslandi og það er mikið púsluspil að hoppa milli landa.
„Þetta gengur vel því ég á frábæra fjölskyldu, frábæran mann og svo er ég með æðislega vinnuveitendur. Ég get stokkið út þegar ég þarf en held samt vinnunni því ég þarf að sjá fyrir mér,“ segir hnefaleikakonan en allt kostar þetta skildinginn.
„Sérstaklega þegar maður er mikið einn. Þrátt fyrir stuðningsaðila hef ég verið mikið í mínus í gegnum árin. Ég hef aldrei verið nálægt því að hætta en stundum kemur upp af hverju er ég að þessu. Sérstaklega þegar á móti blæs.“
Metnaðurinn og dugnaðurinn er mikill og okkar kona er með skýr markmið.
„Ég veit hvert ég stefni og hvað ég get. Nú er ég með réttu mennina til að hjálpa mér að komast þangað. Ég ætla í stóra beltin, titlana. Ég verð í þessu þar til ég næ mínum markmiðum og þar til ég er sátt.“