Umræðan

Að hugsa hið ó­hugsan­lega

Eyþór Ívar Jónsson skrifar

David Beatty fjallaði um tæknibyltingar og áhrif þeirra á viðskiptaumhverfið í fyrirlestri fyrir Viðurkennda stjórnarmenn í Akademias í lok mars. David hefur komið þrisvar sinnum til Íslands til þess að fjalla um stjórnarhætti í alþjóðlegu samhengi. Hann var fyrsti framkvæmdastjóri Canadian Coalition for Good Governance og hefur verið stjórnarformaður í 11 fyrirtækjum og setið í um 40 stjórnum.

David byrjaði þennan fyrirlestur með áhugaverðri sögu. Vísindamennirnir Steven Ward og Simon Day héldu því fram í fræðigrein árið 2001 að Cumbre Vieja-eldfjallið á La Palma (nágrannaeyju Tenerife) gæti runnið í sjóinn í stórum skriðuatburði og valdið gífurlegum tsunami sem myndi ná að ströndum Bandaríkjanna, Evrópu og Afríku. Það var þó ekki ætlun Davids að hræða lífið úr þeim hluta íslensku þjóðarinnar sem heldur til á Tenerife reglulega. Aðrir vísindamenn hafa bent á að afar litlar líkur séu á þessum atburði.

Það sem David var að fjalla um er að ef þessi viðburður raungerðist þá myndu einungis 50% New York búa trúa því að flóðbylgjur væru á leiðinni að rústa borginni samkvæmt því sem fyrrverandi neyðarviðbúnaðarráðherra New York borgar, Joseph J. Esposito, sagði í viðtali. Þeir sem væru á Tenerife hefðu ekki tíma til þess að vera vantrúaðir enda myndi eyjan fara í kaf á mettíma.

Ólíklegt en ekki óhugsandi!

Hröðun breytinga

David Beatty var að fjalla um hröðun breytinga vegna tæknibreytinga sem hann líkti við tsunami. Hann hafði áhyggjur af því að fæstir stjórnendur og stjórnarmenn fyrirtækja, hvar sem þau væru í heiminum, væru búnir að átta sig á að flóðbylgjan væri þegar raunveruleg og að það væri einungis tímaspurning hvenær hún myndi skella á hefðbundnum fyrirtækjum sem væru rekin í þeirri trú að tæknibyltingin væri fólgin í spjallmenni á netinu. Þetta er það sem austurríski hagfræðingurinn Joseph Schumpeter kallaði “skapandi eyðileggingu.”

Á einungis þremur mánuðum er búið að snúa tiltölulega stöðugum framförum efnahagslífs Bandaríkjanna á hvolf, í óvissu þar sem líkur á kreppu aukast dag frá degi.

Þar sem David er frá Kanada þá var ekki annað hægt en að spyrja hann um hugsanlega “yfirtöku” Bandaríkjanna á Kanada. Hann sagði að það væri ekki eitthvað sem Kanadamenn hefðu óskað eftir en þeir gætu lítið gert ef Bandaríkin myndu ákveða að beita hervaldi og ráðast inn í Kanada. Eins og er þá er ekki enn komið til hernaðaraðgerða en viðskiptastríð Bandaríkjanna í formi tolla mun sennilega koma verst niður á Kanada af öllum þjóðum, þar sem milliríkjaviðskipti þjóðanna hafa verið mjög mikil undanfarin ár.

Þann 2. apríl síðastliðinn kom þó í ljós að það eru ekki einungis Kanadamenn sem verða fyrir ofurtollum af hálfu Bandaríkjanna heldur flestar þjóðir heimsins. Þeir sem höfðu verið að tala um tolla sem samningatækni eða að tollar myndu verða notaðir í einstökum tilvikum hafa áttað sig á að hið óhugsanlega er að raungerast. Bandaríkjaforseti kallaði 2. apríl Frelsisdaginn (Liberation Day) en þá var tilkynnt um mestu tollahækkanir í sögu Bandaríkjanna. Eftirskjálftarnir á bandarískum hlutabréfamörkuðum bentu til þess að tollahækkanirnar hefðu komið markaðnum í opna skjöldu. Um 6,4 billjónir Bandaríkjadala töpuðust á hlutabréfamörkuðum á tveimur dögum í kjölfar ákvörðunarinnar, þ.e. rúmlega tvö hundruðföld landsframleiðsla Íslands.

Schumpeter, sem er að ýmsu leyti faðir þeirrar hugmyndafræði sem ríkir í Kísildalnum í Bandaríkjunum, hefði sennilega ekki séð eyðilegginguna í þessum tollaaðgerðum Bandaríkjanna sem þá sköpun sem stuðningsmenn Trumps virðast sjá. Markmiðið virðist líka vera að byggja upp gamla atvinnuvegi í Bandaríkjunum frekar en að eitthvað nýtt komi í stað þess úrelta eins og Schumpeter talaði um. Það sem kemur hins vegar flestum á óvart er hröðun umbreytinga sem hefur átt sér stað í Bandaríkjunum. Á einungis þremur mánuðum er búið að snúa tiltölulega stöðugum framförum efnahagslífs Bandaríkjanna á hvolf, í óvissu þar sem líkur á kreppu aukast dag frá degi.

Síðasta klappstýran

Hannes Hólmsteinn Gissurarson, prófessor emeritus við Háskóla Íslands, fjallaði bæði í ræðu (Rás 1 á RÚV) og í riti (í Morgunblaðinu) um uppruna frjálshyggjunnar og vitnaði sérstaklega í bókina Robust Political Economy (2011) eftir Mark Pennington, hagfræðiprófessor við King‘s College í Lundúnum. Pennington fjallar þar um að stoðir frjálsræðisins séu þrjár, þ.e. eignaréttur, viðskiptafrelsi og valddreifing.

Með því að brjóta niður grunninn að alþjóðaviðskiptum sem lagður var með samkomulagi um Almennan samning um tolla og viðskipti (GATT) árið 1947 hefur Bandaríkjunum tekist að fá allar þjóðir heimsins upp á móti sér.

Í útvarpsviðtalinu benti Hannes á að Bandaríki Donalds Trump hefðu fjarlægst frjálshyggjuna þar sem Trump væri ekki fyrir viðskiptafrelsi og valddreifingu. Í ljósi þess að Trump er upphafsmaður tollastríðs og viðskiptahafta má til sanns vegar færa að hann getur ekki talist vera maður viðskiptafrelsis. Hitt er líka sennilegt að einræðistilburðir Trumps og aðferðafræði í stjórnun bendi ekki til þess að valddreifing sé honum ofarlega í huga. Hann hefur jafnframt gefið í skyn að hann ætli að sitja áfram sem forseti þó að það sé ekki hægt samkvæmt stjórnarskrá Bandaríkjanna.

Hannes vildi þó meina að fasteignasalinn Trump væri fyrir eignarréttinn. Ég er ekki viss um að Kanadamaðurinn David Beatty eða vinir okkar í Grænlandi og Danmörku væru honum sammála um það þegar Trump hefur sagt að hann vilji eignast Kanada og Grænland með góðu eða illu. En niðurstaða Hannesar virðist þó vera skýr; Trump er enginn frjálshyggjumaður.

Það mátti sjá á fréttaflutningi á Fox fréttastöðinni í Bandaríkjunum að stemmningin hafði eitthvað súrnað í kjölfar Frelsisdagsins í takt við lækkun á hlutabréfamörkuðum. Þar var t.d. fjallað um einstaka útreikninga á tollaprósentum á ólíkar þjóðir. Álitsgjafar sjónvarpsstöðvarinnar áttu erfitt með útskýra skynsemina í þessum útreikningum.

Það hafa þó ekki allir gefið upp vonina um að þessi hugmyndafræði um ofurtolla sé góð hugmynd fyrir Bandaríkjamenn og byggð á traustum grunni frekar en sandi. Þeim virðist þó fara ört fækkandi, jafnvel hér á landi. Á einhverjum tímapunkti er þó nauðsynlegt að vekja athygli síðustu klappstýrunnar á að óskhyggja er hvorki góð hagfræði né frjálshyggja.

Geimveran

Árið 1987 sagði Ronald Reagan þáverandi Bandaríkjaforseti í ræðu hjá Sameinuðu þjóðunum að ágreiningur þjóða á heimsvísu myndi hverfa ef við stæðum andspænis geimverum. Hann átti við að sameiginleg ógn sem myndi stafa af geimverum myndi sameina allar þjóðir heimsins og við myndum gleyma öðrum ágreiningi. Hann bætti svo við spurningunni um hvort að þessi ógn væri ekki þegar til staðar. Sumir hafa túlkað það svo að hann væri að gefa í skyn að Sovétríkin, en þarna vorum við í kalda stríðinu, væru þessi ógn. Sennilega hefði Reagan aldrei trúað því að geimveran gæti orðið forseti Bandaríkjanna.

Með því að brjóta niður grunninn að alþjóðaviðskiptum sem lagður var með samkomulagi um Almennan samning um tolla og viðskipti (GATT) árið 1947 hefur Bandaríkjunum tekist að fá allar þjóðir heimsins upp á móti sér. Evrópusambandið hefur sem aldrei fyrr tekið höndum saman og allt í einu eru Kínverjar ekki alslæmir.

Vandamálið virðist vera að eitt er að þagga umræðuna og hitt er að neita að rökræða. Að gera hættulegar tilraunir blindandi er ekki líkleg leið til árangurs.

Það er freistandi að tala um Trump sem einhvers konar pólitískan frumkvöðul sem er undir áhrifum Schumpeters og er að umbreyta hinu pólitíska landslagi. Með þessum aðgerðum er hins vegar ekki verið að ýta undir alþjóðaviðskipti eða nýsköpun eins og flestir frumkvöðlar myndu styðja heldur verið að gera efnahagslega tilraun sem gæti mulið grunninn undan kapítalismanum. Joseph Schumpeter hafði áhyggjur af því í bókinni Capitalism, Socialism and Democracy (1942) að kapítalismi myndi ómeðvitað grafa undan sjálfum sér. Hann hafði meðal annars áhyggjur af því að verndarstefna og pólitískar hugmyndir myndu vinna gegn hagsæld og nýsköpun í nafni skammtíma pólitískra markmiða.

Það var reyndar kominn annar tónn í skrif Schumpeters á eldri árum, bitur tónn og vonleysi, í samanburði við hinn unga Schumpeter. Hann talaði m.a. um að lýðræðið væri hugsanlega verra kerfi en sósíalismi og ríkisrekið skipulag með tæknilegri stjórn. Flestir vitna frekar í hinn unga Schumpeter sem skrifaði The Theory of Economic Development (1911) þar sem hann fjallaði um kraft frumkvöðulsins og nýsköpun sem hreyfiafl framfara og framtíðar. Það sem hinn ungi Schumpeter hafði áhyggjur af var að frumkvöðullinn og nýsköpun hans væru ekki hluti af klassískum hagfræðikenningum og þar af leiðandi væri ekki næg umræða um drifkraft virðisköpunar. Trump er hins vegar ekki sá frumkvöðull.

Hættulegar hugmyndir

Árið 2006 kom út ritgerðarsafnið What Is Your Dangerous Idea?: Today's Leading Thinkers on the Unthinkable í ritstjórn John Brockman. Það sem er áhugavert við þessa bók er að 109 hugmyndafræðingar veltu því fyrir sér, hver fyrir sig, hvað væru hættulegar hugmyndir ef þeir myndu hugsa hið óhugsanlega. Steven Pinker, prófessor í sálfræði við Harvard háskóla, skrifar t.d. innganginn að bókinni. Pinker fjallar um mikilvægi þess að eiga upplýsta umræðu um hugmyndir. Hann taldi að þöggun og hóphugsun vera stærstu vandamálin sérstaklega þegar ögrandi hugmyndir væru annars vegar.

Það er umhugsunarvert hve margir neita að trúa því hve miklum skaða flóðbylgjan gæti valdið. Að bíða og sjá til í von og óvon getur ekki verið góð aðferðafræði.

Lengi vel var það stærsta vandamál frumkvöðla að þeir fóru af stað með hugmyndir án þess að ræða við nokkurn mann og eyddu bæði tíma og kostnaði í að byggja upp fyrirtæki sem voru hvorki fugl né fiskur. Þessi fyrirtæki fóru í kapphlaupi fram af brúninni en skyldu þó stundum eftir sig reynslu og þekkingu. Það varð hins vegar ákveðin umbreyting í uppbyggingu sprotafyrirtækja þegar frumkvöðlar áttuðu sig á því að halda hugmyndum leyndum fyrir öllum og jafnvel sjálfum sér var ekki góð aðferðafræði. Þessi leyndarþörf leiddi til rörhugsunar og ranghugmynda. Stökkbreyting varð á uppbyggingu fyrirtækja þegar frumkvöðlar fóru að ræða við viðskiptavini og gera tilraunir til þess að sjá hvernig viðskiptavinir væru að upplifa virðissköpun þeirra. Frumkvöðlar voru kannski ekki með hættulegar hugmyndir en gátu verið sjálfum sér verstir.

Það er hins vegar vandamál þegar stórfelldar tilraunir eru gerðar án þess að það sé búið að rökræða þær og prófa til þess að meta hvort þær séu brotnar eða lausn á vandamáli. Að öllum líkindum erum við þátttakendur í stærstu samfélagstilraun seinni ára. Í augum margra hagfræðinga, eins og nóbelsverðlaunahagfræðingsins Paul Krugmans, eru tollahækkanir Bandaríkjanna hættulegasta efnahagstilraun sem gerð hefur verið í langan tíma. Vandamálið virðist vera, eins og Pinker benti á, að eitt er að þagga umræðuna og hitt er að neita að rökræða. Að gera hættulegar tilraunir blindandi er ekki líkleg leið til árangurs.

Áhættustýring

Það er ákveðin tækni í áhættustýringu að reyna að hugsa hið óhugsanlega. Það verður hins vegar að segjast eins og er, að þrátt fyrir fjölda sviðsmyndagreininga þá sá enginn Covid fyrir. Eins virðist enginn hafa verið búinn að hugsa mikið um að Trump myndi gera hið óhugsanlega og setja alþjóðaviðskipti á heimsvísu í uppnám. Stundum er erfitt og jafnvel ómögulegt að hugsa hið óhugsanlega en við verðum að vera vakandi þegar atburðurinn hefur raungerst. Það er umhugsunarvert hve margir neita að trúa því hve miklum skaða flóðbylgjan gæti valdið. Að bíða og sjá til í von og óvon getur ekki verið góð aðferðafræði.

Kannski er lærdómurinn sá að ef við hugsum ekki hið óhugsanlega í dag, þá vöknum við á morgun í heimi sem við skiljum ekki — og hefðum hugsanlega getað komið í veg fyrir!

Höfundur er forseti Akademias.




Umræðan

Sjá meira


×