Brynleifur hefur unnið sem verktaki og smiður í gegnum tíðina en ákvað að fara að hægja á sér og njóta lífsins eftir fimmtugt. Keypti sér þá 22 hektara jörð í Lettlandi með hálfónýtu bjálkahúsi sem hann er byrjaður að gera upp og ætlar sér að nota á vorin og haustin sem sinn sumarbústað.
Því næst keypti hann sér lóð við undurfagra Indlandshafsströnd Kenía, við Díaní Beach, og er nú búinn að reisa sér þar um 900 fermetra höll með fimm svítum, sundlaug, ræktarherbergi, nuddherbergi, gestahúsi og fleiru. Þar stefnir hann á að dvelja á veturna. Meðan hann flakkar um heiminn framfleytir hann sér á fyrirtæki sem hann rekur á Íslandi og á leigutekjum, því hann er einnig farinn að leigja út höllina sína í Kenía á heimasíðu sinni.
Lóa Pind Aldísardóttir og Sigurður Már Davíðsson kvikmyndatökumaður heimsóttu Brynleif til bæði Lettlands og Kenía fyrir lokaþáttinn af sjöttu seríu „Hvar er best a búa?“ Þau voru viðstödd árlega kartöfluhátíð sem hann heldur á haustin við bjálkahúsið sitt í Lettlandi og voru svo hjá honum í mildu veðurfarinu í Kenía í október.
Ítarleg saga þessa ævintýramanns var í lokaþættinum sem var á dagskrá Stöðvar 2 fyrir ekki svo löngu.Um var að ræða lokaþáttinn í seríunni. Glæsilegt húsið sem hann reisti sér í Kenía má sjá í broti sem hér fylgir.
Í þáttaröðinni heimsótti Lóa fólk sem rekur kaffihús, rommverksmiðju, kennir Pilates, vinnur hjá OECD, er í verktakabransanum, rekur heimili fyrir táningsmæður í Kenía, selur fasteignir, leysir tölvuvandamál, vinnur við smíðar, sinnir lýsingarhönnun, hannar föt og býr í stórborgum, sveit og bæjum á Tenerife, Borgundarhólmi, Miami Beach, í Mexíkó, París, Brussel, Kenía og Lettlandi.
Framleiðandi og leikstjóri þáttanna er Lóa Pind Aldísardóttir, myndatökumaður 6. þáttar Sigurður Már Davíðsson, klippingu annaðist Snorri Sigbjörn Jónsson og Magnús Ingvar Bjarnason hjá Obbosí var honum til aðstoðar. Framleitt af Lóu Production fyrir Stöð 2.