Í Japan fór Nikkei vísitalan upp um rúm níu prósent, sex prósenta hækkun sást í Suður Kóreu og þriggja prósenta í Hong Kong. Í Taívan fóru bréfin svo upp um rúm níu prósent en þar hafði lækkun síðustu daga verið einna mest. Sömu sögu var að segja af Wall Street í Bandaríkjunum í gærkvöldi þar sem hlutabréfaverð rauk upp við tilkynninguna sem kom flestum á óvart.
Á Norðurlöndum hækkaði vísitalan í Svíþjóð um rúm átta prósent við opnun markaða, 12,5 prósent í Danmörku og fimm prósent í Noregi. FTSE 100-vísitalan í London hækkaði um 6,1 prósent við opnun, Dax-vísitalan í Þýskalandi um átta prósent og CAC 40-vísitalan í Frakklandi um rúm tvö prósent.
Nú er staðan sú að öll lönd heims fá á sig tíu prósenta tollinn sem áður hafði verið boðaður, nema Kína en Trump hefur sett 125 prósenta toll á allar vörur þaðan. Kínvejar hafa sett tæplega níutíu prósenta tolla á vörur frá Bandaríkjunum á móti þannig að deilur þessara tveggja stærstu velda heims eru hvergi nærri yfirstaðnar.
Greinendum er þó greinilega létt og bankarisinn Goldman Sachs breytti spá sinni í nótt og telur nú um 45 prósenta líkur á kreppu í Bandaríkjunum en á dögunum stóð sú spá í 65 prósentum.