Enski boltinn

Rodri aftur til æfinga en sagður bíða eftir HM

Sindri Sverrisson skrifar
Rodri vann Gullboltann í fyrra en hefur misst af nær allri leiktíðinni í vetur vegna meiðsla.
Rodri vann Gullboltann í fyrra en hefur misst af nær allri leiktíðinni í vetur vegna meiðsla. Getty/James Gill

Spænski miðjumaðurinn Rodri, núverandi handhafi Gullboltans, er byrjaður að æfa með liði Manchester City að nýju eftir að hafa slitið krossband í hné í september í fyrra.

Rodri sleit krossband í leik gegn Arsenal í september og hefur gengi City á flestum vígstöðvum verið langt undir væntingum í fjarveru hans.

Liðið er þó komið í úrslitaleik enska bikarsins og mætir þar Crystal Palace 17. maí, og City verður svo með á HM félagsliða sem hefst í Bandaríkjunum 14. júní.

Samkvæmt frétt Sky Sports er ekki kominn neinn tímarammi varðandi það hvenær Rodri mun byrja að spila að nýju en miðillinn segir þó að HM sé raunhæfara markmið en bikarúrslitaleikurinn eða lokaleikirnir í ensku úrvalsdeildinni.

Rodri var myndaður á æfingu í dag en það var ekki hans fyrsta æfing heldur hefur hann smám saman verið að snúa aftur til æfinga.

Erling Haaland er einnig byrjaður að æfa að nýju eftir ökklameiðsli og er búist við frekari fréttum af Norðmanninum á blaðamannafundi Pep Guardiola á morgun. Nathan Ake og John Stones eru hins vegar ekki byrjaðir að æfa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×