Skoðun

Svansvottaðar í­búðir – fjár­festing í lífs­gæðum

Bergþóra Góa Kvaran skrifar

Það er engin tilviljun að Svansvottaðar íbúðir eru sífellt algengari á fasteignamarkaði. Neytendur gera meiri kröfur en áður og byggingaraðilar bregðast við með því að huga betur að umhverfi, heilsu og lífsgæðum. En hvað felst í Svansvottun og hvers vegna ættir þú að hafa áhuga á henni sem væntanlegur íbúðareigandi?

Svansvottun - Gæðavottun

Fyrir hinn almenna kaupenda snýst þetta um meira en umhverfismál, því Svansvottun hefur raunveruleg og mælanleg áhrif á innivistina sem getur haft jákvæð áhrif á upplifun og heilsu í daglegu lífi

  • Nægileg dagsbirta: svo íbúð geti fengið Svansvottun þarf hún að uppfylla kröfur um dagsbirtu sem tryggir það að rýmin njóti hámarksdagsbirtu þegar hún er til staðar.
  • Hreinna inniloft: flestar Svansvottaðar byggingar eru með loftræsikerfi sem tryggir ferskt loft allan sólarhringinn – án þess að þurfi að opna glugga.
  • Minni efnasúpa: efni sem notuð eru í Svansvottuðum byggingum þurfa að vera annaðhvort vottuð af traustum umhverfismerkjum eða standast strangar kröfur um efnainnihald. Það þýðir minni útsetning fyrir skaðlegum efnum fyrir þig og fjölskylduna.
  • Rakaforvarnir og vandað verklag: á framkvæmdartíma er sérstakur rakavarnarfulltrúi sem sér til þess að byggingarefni séu rétt meðhöndluð og tryggja frágang og fyrirbyggja rakaskemmdir.

Það er því gríðarlega mikill ávinningur í að fjárfesta í Svansvottuðu húsnæði.

Harðar kröfur – Auðvelt val

Þau sem velja að kaupa Svansvottað húsnæði eru ekki aðeins að fjárfesta í íbúð, heldur í framtíð – bæði sinni og barnanna sinna. Það er fjárfesting í heilsu, lífsgæðum og gæða húsnæði.

Svansmerkið tekur á öllum lífsferli vöru eða þjónustu sem er vottuð og á því að einfalda neytendum valið þegar kemur að kaupum.

Í dag eru fjölmargar íbúðir í sölu sem eru annaðhvort þegar Svansvottaðar eða í ferli við að verða það. Að velja slíkt húsnæði er því ekki bara umhverfisvænt – heldur líka skynsamlegt og farsælt val.

Snjöll fjárfesting

Svansvottað húsnæði er húsnæði sem er hannað fyrir framtíðina, dregur úr rekstrar- og viðhaldskostnaði og býður upp á heilsusamlegt heimili fyrir þig og fjölskylduna. Þetta er ekki bara umhverfisvæn lausn – þetta er snjöll fjárfesting í lífsgæðum.

Höfundur er sérfræðingur hjá Umhverfis- og orkustofnun.




Skoðun

Sjá meira


×