Íslenski boltinn

Vals­konur ó­líkar sér: Kallar eftir hungraðri Nadíu í stað Rhodes

Sindri Sverrisson skrifar
Mist Rúnarsdóttir og Ásta Eir Árnadóttir fóru yfir málin í Bestu mörkunum á laugardaginn.
Mist Rúnarsdóttir og Ásta Eir Árnadóttir fóru yfir málin í Bestu mörkunum á laugardaginn. Stöð 2 Sport

„Mér finnst Valsliðið svo ólíkt sér,“ sagði Helena Ólafsdóttir, stjórnandi Bestu markanna, eftir 1-0 tap Valskvenna gegn Stjörnunni í 4. umferð Bestu deildarinnar í fótbolta.

Valsliðið hafði ekki fengið á sig mark í fyrstu þremur umferðunum en tapaði svo í Garðabæ, 1-0, og er nú með sjö stig, þremur stigum á eftir Breiðabliki, FH og Þrótti. Næstu tveir leikir Vals eru einmitt gegn Þrótti og Breiðabliki.

„Þetta var hægt. Mikið af lélegum sendingum. Þær voru ekki að tengja mikið saman. Þær voru ólíkar sjálfum sér,“ sagði Ásta Eir Árnadóttir, nýliði í Bestu mörkunum, en brot úr þættinum má sjá hér að neðan.

Klippa: Bestu mörkin - Vonbrigði Vals

Valur hafði unnið frábæran 3-0 sigur gegn Þór/KA í þriðju umferð en tapaði svo fyrir Stjörnunni sem hafði verið í miklu basli í upphafi móts.

„Það sem maður hefði haldið að ætti að vera lykill hjá Val er þessi reynsla sem þær hafa sem ætti að hafa með sér einhvern stöðugleika. En það er ekki stöðugleiki hérna á milli leikja. Vissulega er aðeins verið að hreyfa til í liðinu. Berglind Rós er risapóstur og maður veltir fyrir sér af hverju ekki var notast við sömu lausnir við fjarveru hennar eins og í síðasta leik,“ sagði Mist Rúnarsdóttir.

Mist velti fyrir sér stöðu Jordyn Rhodes, framherja Vals:

„Hún skoraði eitt mark í síðustu umferð og ég er alveg viss um að hún á eftir að fara að skora meira fyrir þetta Valsliðið. En hún er ekki í hundrað prósent formi. Ætti kannski að setja hungraða Nadíu frekar upp á topp og eiga Jordyn inni?“ spurði Mist og spurning hvað þjálfararnir Kristján Guðmundsson og Matthías Guðmundsson ákveða að gera fyrir komandi stórleiki við Þrótt á fimmtudaginn og við Blika 16. maí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×