Íslenski boltinn

Stokke í raðir Aftur­eldingar

Valur Páll Eiríksson skrifar
Benjamin Stokke lék með Blikum í fyrra og varð Íslandsmeistari. Hann veitir Mosfellingum reynslu í framlínuna.
Benjamin Stokke lék með Blikum í fyrra og varð Íslandsmeistari. Hann veitir Mosfellingum reynslu í framlínuna. Vísir/Einar

Norski framherjinn Benjamin Stokke hefur gengið í raðir Aftureldingar. Hann skrifaði undir samning sem gildir út yfirstandandi leiktíð.

Mosfellingar náðu að ganga frá skiptum Stokke fyrir lok félagsskiptagluggans í gær. Stokke er 34 ára gamall og kemur frá norska liðinu Eik Tönsberg.

Stokke lék með Breiðabliki í Bestu deild karla í fyrra og varð Íslandsmeistari með liðinu. Hann byrjaði aðeins átta leiki, spilaði alls 23 í deild fyrir liðið og skoraði fjögur mörk.

Stokke gæti spilað sinn fyrsta leik þegar Afturelding mætir Stjörnunni í Bestu deildinni á mánudag.

Yfirlýsing Aftureldingar:

Benjamin Stokke í Aftureldingu

Norski framherjinn Benjamin Stokke hefur gengið til liðs við Aftureldingu en hann gerir samning út tímabilið í Bestu deildinni. Hinn 34 ára gamli Benjamin kemur til Aftureldingar frá uppeldisfélagi sínu Eik Tönsberg í Noregi. Afturelding vill sérstaklega þakka Eik fyrir góð samskipti í kringum félagaskiptin.

Benjamin þekkir til á Íslandi en á síðasta tímabili skoraði hann fjögur mörk í átta byrjunarliðsleikjum með Breiðabliki í Bestu deildinni og hjálpaði liðinu að verða Íslandsmeistari. Ári áður, árið 2023, var Benjamin markahæstur í norsku B-deildinni þegar hann skoraði sextán mörk með Kristiansund. Samtals hefur Benjamin skorað 73 mörk í 261 leik í efstu og næstefstu deild í Noregi auk þess sem hann skoraði fimm mörk í dönsku úrvalsdeildinni með Randers á sínum tíma.

„Kæru stuðningsmenn Aftureldingar. Ég er ánægður með að vera orðinn hluti af félaginu. Éghlakka til að kynnast ykkur og taka þátt í þessu spennandi ferðalagi. Sjáumst fljótlega!” sagði Benjamin eftir undirskrift.

Afturelding býður Benjamin hjartanlega velkominn í Mosfellsbæinn!





Fleiri fréttir

Sjá meira


×