Erlent

Sakar Rússa um for­dæma­laus af­skipti af kosningum í Pól­landi

Kjartan Kjartansson skrifar
Krzysztof Gawkowski á ráðstefnu um varnarmál í Varsjá. Þar sagði hann Rússa reyna að hafa áhrif á forsetakosningar í Póllandi.
Krzysztof Gawkowski á ráðstefnu um varnarmál í Varsjá. Þar sagði hann Rússa reyna að hafa áhrif á forsetakosningar í Póllandi. Vísir/EPA

Pólskur ráðherra segir rússnesk stjórnvöld nú há fordæmalausa herferð til þess að hafa áhrif á forsetakosningar síðar í þessum mánuði. Afskiptin felist meðal annars í upplýsingahernaði og tölvuárásum á innviði landsins.

Fyrri umferð pólsku forsetakosninganna fer fram 18. maí. Krzysztof Gawkowski, aðstoðarforsætisráðherra og ráðherra stafrænna mála, sagði á ráðstefnu um varnarmál í dag að Rússar stæðu í umfangsmiklum tilraunum til þess að hafa áhrif á úrslitin.

„Þetta er gert með því að dreifa upplýsingafalsi ásamt blönduðum árásum á mikilvæga innviði Póllands til þes að lama hefðbundna starfsemi ríkisins,“ sagði Gawkowski.

Rússar hefðu meðal annars beint spjótum sínum að veitufyrirtækjum, hita- og raforkuverum auk stjórnsýslustofnana. Árásir Rússa væru tvöfalt fleiri nú en á sama tíma í fyrra.

„Þessa stundina í Póllandi, á hverri mínútu sem ég held þessa ræðu, eru á annan tug atvika skráð þar sem skotmarkið er mikilvægir innviðir,“ hefur Reuters-fréttastofan eftir ráðherranum.

Stuðningurinn við Úkraínu geri Póllandi að skotmarki

Pólsk stjórnvöld sökuðu Rússa um að standa að baki tölvuárás á geimstofnun landsins í mars og í fyrra voru þeir taldir hafa ráðist á pólskan ríkisfjölmiðil. Rússar hafa alltaf neitað ásökunum Pólverja og annarra þjóða um tölvuárásir og tilraunir til afskipta af kosningum.

Engu að síður er þekkt að stjórnvöld í Kreml hafa ítrekað reynt að hafa áhrif á kosningar víða um heim, þar á meðal í Bandaríkjunum, Frakklandi og víðar. Fyrri umferð forsetakosninga í Rúmeníu í vetur voru ógiltar vegna afskipta Rússa.

Pólverjar segja að aðstoð þeirra við Úkraínu hafi gert þá að lykilskotmarki skemmdarverkastarfsemi, tölvuárása og upplýsingahernaðar Rússa.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×