Eitt töfra­bragð dugði gegn United í dýr­mætum sigri

Sindri Sverrisson skrifar
Fyrirliðinn Reece James átti risastóran þátt í marki Chelsea og fagnaði því ákaft.
Fyrirliðinn Reece James átti risastóran þátt í marki Chelsea og fagnaði því ákaft. Getty/Darren Walsh

Chelsea er í harðri baráttu um sæti í Meistaradeild Evrópu á næsta tímabili og vann dýrmætan 1-0 sigur gegn Manchester United í kvöld þrátt fyrir ansi tilþrifalitla frammistöðu.

Í raun má segja að eitt töfrabragð hafi dugað Chelsea í kvöld en sigurmarkið kom eftir glæsilegan undirbúning fyrirliðans Reece James sem sendi svo fullkomna sendingu inn í teiginn þar sem Marc Cucurella kom á ferðinni og stangaði boltann í netið.

United-menn virtust, líkt og Tottenham-menn í 2-0 tapinu gegn Aston Villa fyrr í kvöld, meira við hugann við úrslitaleik Evrópudeildarinnar næsta miðvikudag enda fyrir löngu hættir að hafa að nokkru að keppa í ensku úrvalsdeildinni. Þeir komu þó boltanum í netið á 18. mínútu en Harry Maguire var þá dæmdur rangstæður, eftir skoðun í varsjánni, og munaði afar litlu.

Chris Kavanagh dómari þurfti aftur að nýta varsjána á 63. mínútu þegar hann hafði dæmt víti fyrir Chelsea, eftir að hafa talið Andre Onana brjóta á Tyrique George. Á myndbandi sást hins vegar að Onana hafði farið með hendurnar í boltann áður en hann snerti hinn 19 ára George sem var í fyrsta sinn í byrjunarliði í úrvalsdeildarleik.

Það hafði annars fátt markvert gerst þegar Cucurella skoraði svo markið sem öllu skipti, á 71. mínútu, og það dugði til.

Chelsea verður því með örlögin í eigin höndum í lokaumferð deildarinnar, varðandi það að komast í Meistaradeild Evrópu. Liðið er með 66 stig í 4. sæti, líkt og Newcastle í 3. sæti og Aston Villa í 5. sæti, en Newcastle á leik til góða. Manchester City er svo með 65 stig í 6. sæti en á leik til góða við Bournemouth á þriðjudaginn. Nottingham Forest er líka með í spilinu, með 62 stig í 7. sæti, og Arsenal má vara sig í 2. sæti með 68 stig en Arsenal og Newcastle mætast á sunnudaginn.

Stöðuna má skoða betur hér.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira