Grindavík er bikarmeistari í kvennaflokki í körfubolta. Liðið vann sigur á Haukum 77-67 í ansi sveiflukenndum úrslitaleik í Laugardalshöll. Þetta er fyrsti bikarmeistaratitill Grindavíkur í kvennaflokki.
Grindavík byrjaði betur í leiknum en svo komust Haukastúlkur í gang og voru með tveggja stiga forystu eftir fyrsta fjórðung. Staðan í hálfleik var 41-29 fyrir Haukum.
Grindavíkurliðið var mun betra í seinni hálfleiknum og vann verðskuldaðan sigur með tíu stiga mun.
Tiffany Robertson var stigahæst í liði Grindavíkur með 24 stig en hjá Haukum skoraði Kiera Hardy nítján stig.
„Tilfinningin er ólýsanleg. Vörnin í seinni hálfleik skilaði þessum sigri. Við stóðum okkur ekki nægilega vel í fyrri hálfleik en bættum það upp í seinni hálfleik," sagði Jovana Lilja Stefánsdóttir, fyrirliði Grindavíkur, í viðtali á Rúv eftir leikinn.