„Tveir fyrstu leikirnir voru fínir en þú ert að ná mér rétt eftir lélegasta leikinn þannig að maður er auðvitað ósáttur," sagði Aron Kristjánsson, landsliðsþjálfari eftir átta marka tap á móti Þjóðverjum í kvöld í lokaleik íslenska liðsins á æfingamótinu í Þýskalandi.
Ísland vann tvo fyrstu leiki sína á móti Rússlandi og Austurríki og hefði unnið mótið með sigri í kvöld. Íslenska liðið átti hinsvegar fá svör við léttleikandi Þjóðverjum sem fóru á kostum.
Þórir Ólafsson var ekki með íslenska liðinu í kvöld og Aron Pálmarsson og Vignir Svavarsson spiluðu lítið. Þá meiddist Ólafur Bjarki Ragnarsson á nára í leiknum. Guðjón Valur Sigurðsson og Arnór Atlason fóru heldur ekki með íslenska liðinu út. Aron þurfti því að láta reyna á breidd hópsins.
„Við erum með nýtt lið að vissu leyti og margir nýir leikmenn hafa verið að fá mínútur að undanförnu. Þetta er búið að vera svolítið meiðslaár í landsliðnu og mikið um forföll. Þá hafa þessir strákar fengið fleiri mínútur og það sem þeir þurfa. Þeir þurfa að fá verkefni og þurfa að fá mínútur því annars verða þeir ekki klárir," sagði Aron og það var ekkert auðvelt fyrir reynslulitla leikmenn liðsins að glíma við þýskt lið í ham.
„Strákarnir voru á stóra sviðinu í þessum leik á útivelli á móti Þýskalandi. Þeir áttu erfitt með að þola þá pressu," sagði Aron hreinskilinn. Þjóðverjar tryggðu sér sigur á mótinu með sigrinum en þeir komust ekki á leið á EM í Danmörku eins og íslenska landsliðið.
„Það vantaði marga inn í þetta hjá okkur í dag og þá líka leikmenn sem voru hérna úti. Þegar frammistaðan er ekki betri hjá leikmönnum þá var enginn til þess að taka við. Við getum samt tekið helling af góðum hlutum frá þessu móti og það þurum við að nýta okkur í áframhaldandi undirbúningi fyrir Evrópumótið," sagði Aron.
Handbolti