Austurríki vann frábæran sigur á Ungverjalandi, 25-24, á EM í handbolta í kvöld og því er ljóst að leikur Danmerkur og Íslands er þýðingarlaus.
Danmörk var þegar öruggt með efsta sæti milliriðils 1 og fyrr í dag tryggðu Spánverjar sér annað sætið með sigri á Makedóníu.
Ungverjar áttu einir möguleika á að ná Íslandi að stigum í þriðja sætinu en þeir fóru illa að ráði sínu gegn lærisveinum Patreks Jóhannessonar í austurríska landsliðinu í kvöld.
Ungverjaland höfðu yfirhöndina framan af og fjögurra marka forystu í hálfleik, 13-9. Austurríkismenn sýndu þó mikla baráttu í síðari hálfleik og sneru leiknum sér í vil.
Lokamínúturnar voru spennandi og fékk Ungverjaland tækifæri til að jafna metin þegar ein mínúta var eftir. Það gekk ekki eftir og skoraði hvort lið sitt markið á lokasekúndunum.
Þetta var góður endir á mótinu fyrir Austurríki en liðið endaði engu að síður í neðsta sæti í milliriðli 1 með tvö stig. Makedónía er einnig með tvö stig en betri árangur í innbyrðisviðureign liðanna.
Ungverjaland er í fjórða sætinu með þrjú stig og Ísland með fimm stig. Danmörk og Spánn eru bæði með átta stig.
Handbolti