Síðustu daga hafa þeir unnið í því að koma sér niður í rétta vigt og hafa menn jafnvel verið að taka af sér fimm kíló eða meira á einum degi.
Sumir þeirra, eins og Zak Cummings, mæta svo til leiks miklu þyngri á morgun. Cummings verður til að mynda svona 10-15 kílóum þyngri á morgun en hann er í dag sem er ótrúlegt.
Vísir ræddi þessi mál við Jón Viðar Arnþórsson, formann Mjölnis, en hann er í teymi Gunnars Nelson í Dublin.
"Menn sveiflast alveg um 15-20 kíló. Menn fara mikið í bað og gufu en við erum ekki hrifnir af gufunni. Menn hlaupa líka í búningum til að svitna sérstaklega mikið," segir Jón Viðar en hvernig fer maður eins og Cummings að því að þyngja sig um svona 13 kíló á einum degi?
"Það er spurning. Þetta eru einhver töfrabrögð. Þeir borða rosalega vel og drekka alveg helling. Ég hef séð menn bæta allt að 18 kílóum á sig á einum sólarhring."
Gunnar lendir aldrei í miklum vandræðum með að ná vigt en Jón Viðar segir að hann þurfi venjulega að taka fimm kíló af sér til þess að komast í 77 kílóin. Í gær var Gunnar einu og hálfu kílói yfir vigt en í morgun var hann kominn í 77,8 kg en hann má mest vera 77,5 kg.
"Ef eitthvað vantar upp á þá fer hann í saltbað. Það hitar baðið og menn svitna ansi mikið. Gunni verður svo þrem til fjórum kílóum þyngri á morgun."
Sjá má viðtalið við Jón Viðar í heild sinni hér að neðan.
Gunnar Nelson mætir Zak Cummings í Dublin á laugardagskvöld. Þessi stórbardagi verður í beinni á Stöð 2 Sport og hefst útsending kl. 19:00. Fáðu þér áskrift á www.365.is.