Verjendur Hreiðars Más Sigurðssonar, fyrrverandi forstjóra Kaupþings, Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns bankans, og Magnúsar Guðmundssonar, fyrrverandi bankastjóra Kaupþings í Lúxemborg, hafa fram til næsta hausts til að skila greinargerð í máli sem sérstakur saksóknari hefur höfðað á hendur þeim.
Þetta kom fram í fyrirtöku á málinu í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag en þar var tekin afstaða til kröfu verjenda í málinu um að frestur yrði gefinn til að skila greinargerðinni. Farið var fram á frestinn vegna anna í tengslum við önnur mál þar sem Kaupþingsmennirnir fyrrverandi eru sóttir til saka fyrir meint brot sín í aðdraganda hrunsins haustið 2008. Á það féllst dómarinn.
Málið snýr um meint umboðssvik mannanna þriggja vegna lánveitinga út úr Kaupþingsbanka til félaga á Bresku jómfrúareyjunum.
Ekki hefur verið ákveðin dagsetning aðalmeðferðar í málinu en ljóst er að hún fer ekki fram fyrr en að þessum fresti liðnum. Lögmenn þremenninganna hafa til 1. október næstkomandi til að skila greinargerðum í málinu.