„Það vantaði sérstaklega stafræna prentun á náttúruleg efni, en við eigum í kringum 18 tegundir af efnum; silki, bómullarefni, bómullarjersey og ullarefni,“ segir Margrét.
„Við höfum haft nóg að gera síðan við opnuðum en við byrjuðum að prenta að einhverju ráði í október á síðasta ári. Við erum nú komnar í samstarf, meðal annars við textíldeild Myndlistaskóla Reykjavíkur og Aurum.
Kenndur verður sérstakur kúrs í Myndlistaskólanum, samstarf nemenda og iðnaðarins, og verður afraksturinn kynntur í Aurum Bankastræti á HönnunarMars 2014."

Þær Guðrún og Margrét þróuðu hugmyndina að fyrirtækinu á námskeiðinu Brautargengi á vegum Nýsköpunarmiðstöðvar Íslands enda sáu þær mikla möguleika fyrir þessa þjónustu hér á landi.
„Fyrir minni framleiðslu eins og prótótýpugerð í fatahönnunargeiranum er frábært fyrir íslenska fatahönnuði að geta sótt þjónustuna innanlands. Bæði tekur það styttri tíma að fá prufurnar og eins getur hönnuðurinn tekið þátt í ferlinu og þarf ekki að senda út í óvissuna og bíða svo eftir póstinum,“ segir Margrét.

Er von á eigin textíllínu frá Textílprentun Íslands? „Það er vel mögulegt þegar fram líða stundir.“
Nánar má forvitnast um Textílprentun Íslands á facebook