Stofnunin Institute for Economics and Peace áætlar að hryðjuverk, átök og stjórnmálaóstöðugleiki í ríkjum heimsins kostaði heimsmarkaðshagkerfið 13,6 billjónir dollara.
Þetta kemur fram í nýjustu útgáfu Global Peace Index, árlegri friðarvísitölu sem nær yfir 163 ríki heimsins og mælir m.a. hluti eins og þjóðfélagslegan óróa, glæpi, vopnakaup, þátttöku í stríðsrekstri og samskipti við nágrannaríki.
Ófriður í heiminum jókst á milli ára og ber þar helst að líta til átaka í Sýrlandi, Úkraínu, Mið-Afríkulýðveldinu og í Líbíu. Mið-Austurlönd og Norður-Afríka eru ófriðsælustu svæði heimsins. Í greinargerð vísitölunnar kemur fram að um 60 milljónir manns hafi verið flóttamenn í byrjun árs 2015 og að um 60 prósent Sýrlendinga hafi flúið heimili sín.
Samkvæmt vísitölunni er bilið að aukast hratt á milli friðsælustu ríkja heimsins og þeirra sem ófriðsælli teljast. Ísland trónir enn á ný á toppi listans en Sýrland vermir botnsætið, fjórða árið í röð.
Átök og hryðjuverk kosta heiminn billjónir
Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
