Vladimír Pútín Rússlandsforseti hefur hvatt arftaka Islam Karimov, forseta Úsbekistans sem lést í síðustu viku, til að stýra landinu áfram í anda Karimovs.
„Við vonumst að sjálfsögðu til að allt þar sem Islam Abduganiyevich (Karimov) byrjaði á komi til með að halda áfram,“ sagði Pútín í samtali við Shavkat Mirziyoyev, forsætisráðherra Úsbekistans, í heimsókn sinni til höfuðborgarinnar Tashkent.
Karimov hafði stýrt landinu allt frá hruni Sovétríkjanna 1991 og hafði oft verið sakaður um einræðistilburði.
Hann var jarðsettur í heimaborg sinni Samarkans á laugardag, en hann lést í síðustu viku, 78 ára gamall, eftir að hafa fengið heilablæðingu.
Forseti öldungadeildar úsbeska þingsins, Nigmatilla Tulkinovich Yuldashev, gegnir nú tímabundið starfi forseti að forsetanum gengnum.
Hvetur arftakann til að stýra landinu í anda Karimovs
Atli Ísleifsson skrifar
