Þorsteinn Bergsson leiðir lista Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi í alþingiskosningunum í haust. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá fylkingunni.
Þorsteinn er fæddur 1964 og er bóndi á Unaósi í Hjaltastaðaþinghá á Fljótsdalshéraði og sjálfstætt starfandi þýðandi. Kona hans er Soffía Ingvarsdóttir framhaldsskólakennari.
Hann hefur verið reglulegur gestur á sjónvarpsskjám landsmanna undanfarin ár enda í liði Fljótsdalshéraðs í Útsvari. Lið hans hafði sigur í keppninni síðastliðið vor.
Í tilkynningunni segir að Þorsteinn hafi um árabil verið málsvari eindreginnar vinstristefnu, umhverfisstefnu í anda sjálfbærrar þróunar og þess að stjórnvöld búi þegnum þjóðfélagsins, hver sem efnahagur þeirra eða búseta er, frá sinni hendi sem jafnasta aðstöðu.
Framboðslisti Alþýðufylkingarinnar í Norðausturkjördæmi verður kynntur í heild sinni seinna í vikunni, að því er kemur fram í tilkynningu frá fylkingunni.
