Guðmundur var efstur eftir forkeppnina og var að vonum ánægður með það. „Ég er í skýjunum,“ sagði hann og var ekkert að orðlengja hlutina.
Sjö knapar fóru í A-úrslit og er alltaf mikil pressa að halda efsta sætinu. Í samanburðinum þurfti Guðmundur að hafa fyrir því að vera áfram á toppnum, fékk meðalgóðar einkunnir fyrir brokk og stökk, úrvalsgóða einkunn fyrir fet og góðar einkunnir fyrir tölt og skeið, gangtegundir sem hafa tvöfalt vægi í lokaeinkunn. Fyrir skeiðið var hann í þriðja sæti, en útfærslan á skeiðinu tókst ágætlega og náði hann að tryggja sér silfrið með því.
Fimmgangskeppni í Meistaradeild Cintamani í hestaíþróttum var sýnd í beinni útsendingu á Stöð 2 sport og er meðfylgjandi myndskeið af sýningu Guðmundar Björgvinssonar í forkeppninni.
Niðurstöður A-úrslita í fimmgangi voru eftirfarandi:
1. Hulda Gústafsdóttir - Birkir frá Vatni - 7.43
2. Guðmundur Friðrik Björgvinsson - Sjóður frá Kirkjubæ - 7.21
3. Jakob Svavar Sigurðsson - Skýr frá Skálakoti - 7.10
4. Þórarinn Ragnarsson - Hildingur frá Bergi - 7.02
5. Árni Björn Pálsson - Oddur frá Breiðholti í Flóa 7.00
6. Daníel Jónsson - Þór frá Votumýri 2 - 6.98
7. Teitur Árnason - Hafsteinn frá Vakurstöðum - 6.38