Skoðun

Læknirinn, kýrin og kálfurinn

Árni Stefán Árnason skrifar

Það vekur ætíð undrun mína, sem dýraverndarsinna og dýralögfræðings, þegar þjónar heilbrigðisstéttarinnar, læknir í þessu tilviki, sem hlotið hefur viðurnefnið „Læknirinn í eldhúsinu“ gerir sér far um, á víðlesnum miðlum, að hvetja neytendur til neyslu afurða úr dýraríkinu. Margoft hefur verið sýnt fram á, með rökum, að slíkt henti lýðheilsu miður vel.



Umræddur læknir, Ragnar Freyr, hefur getið sér frægðar fyrir að vera flinkur í eldhúsinu og virðist hafa fastmótaðar hugmyndir um misskilið ágæti neyslu afurða út dýraríkinu. T.d. hefur verið sýnt fram á gagnsleysi mjólkur fyrir mannslíkamann, sem læknirinn vinsæli rómar þó mjög. Hann hefur rangt fyrir sér. Þá hefur verið sýnt fram á skaðsemi rauðs kjöts og unninna kjötvara, sem ristilkrabbameinsvaldandi.



Með þessu háttalagi sínu, hvetur læknirinn auk þess til illrar meðferðar dýra, en alkunna er að í mjólkurframleiðslu felst dulið dýraníð, eitt það versta, sem kunnugt er um. Í því felst annars vegar að kýr eru sæddar ár eftir ár í þeim tilgangi að ala kálfa í þeim tilgangi að líkami þeirra fari, að framleiða mjólk fyrir kálfinn þeirra. Að loknum burði er kálfurinn tekinn af móður sinni. Fullt er til af vitnisburði um að þau öskri, í bókstaflegri merkingu, eftir hvort öðru í langan tíma eftir aðskilnaðinn. Þetta er ill meðferð á dýrum og þetta styður læknirinn eða er fáfróður um.



Mjólkurkýrin er látin þræla sér út við þetta ár eftir ár og lifir miklu skemur en við náttúrulegar aðstæður. Þegar nytin minkar lendir hún í sláturhúsinu. Því keti virðist læknirinn taka fagnandi, í eldhúsi sínu.



Ég botna ekkert í því að lýðheilsupostuli skuli birtast á skjám landsmanna og boða ófögnuð, sem þennan og þiggja laun fyrir. Launalaus gefur hann sig ekki í þetta verkefni mjólkur og ketframleiðenda – það er á hreinu. Margur verður af aurum api!

 



Höfundur er lögfræðingur.




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×