Samningurinn var undirritaður í dag í höfuðstöðvum KSÍ af fulltrúum KSÍ, MS og Sýnar hf., sem meðal annars rekur Stöð 2 Sport og Vísi.
Mjólkurbikarinn hefst á undan Pepsi-deildinni og fara fyrstu leikirnir fram 12. apríl með fimm leikjum í karlaflokki. Úrslitaleikur í kvennaflokki fer fram í ágúst en í karlaflokki í september.
Eftirfarandi fréttatilkynning var svo birt á heimasíðu KSÍ í dag:

Ari Edwald, forstjóri Mjólkursamsölunnar:
„Það er okkur mikil ánægja að vera þátttakendur í þessu skemmtilega verkefni sem Bikarkeppni KSÍ er og eiga þátt í því að endurvekja gamla og góða Mjólkurbikarinn sem svo margir minnast með hlýjum huga. Við hlökkum til að fylgjast með æsispennandi keppni í sumar og bíðum spennt eftir að skála í mjólk með verðandi Mjólkurbikarmeisturum í september.“
Guðni Bergsson, formaður KSÍ:
„Ég er mjög ánægður með þennan samning og vænti mikils af samstarfinu milli MS, KSÍ og félaganna. Mjólkursamsalan hefur sterkar rætur í íslensku samfélagi og hefur mikla tengingu við íþróttahreyfinguna. Bikarkeppni KSÍ hét einmitt Mjólkurbikarinn um árabil og eflaust mörg okkar sem muna vel eftir því.“
Mjólkurbikar karla hefst fimmtudaginn 12. apríl með fimm leikjum í karlaflokki en þá mætast Ýmir og KV, Álftanes og Ísbjörninn, ÍR og Ægir, Grótta og Vatnaliljur, Augnablik og Kormákur/Hvöt og loks Berserkir og Reynir S. Alls eru 27 leikir á dagskrá í fyrstu umferð karla sem lýkur laugardaginn 27. apríl. Mjólkurbikar kvenna hefst laugardaginn 5. maí en þá mætast lið Álftaness og Fjölnis á Bessastaðavelli en alls eru níu leikir á dagskrá í fyrstu umferð kvenna sem lýkur mánudaginn 21. maí.
58 ár eru síðan bikarkeppni KSÍ var haldin í fyrsta sinn en það var árið 1960 sem fyrst var keppt um bikarinn og verður spennandi að sjá hvaða lið standa uppi sem sigurvegarar í lok sumars en leikið verður til úrslita í Mjólkurbikar karla og kvenna á Laugardalsvelli laugardaginn 15. september.“