Birgir Örn Tómasson er enn ósigraður sem atvinnumaður í MMA en hann vann um nýliðna helgi sinn þriðja bardaga á ferlinum.
Að þessu sinni hafði Birgir betur gegn Stelios Theo á Fightstar bardagakvöldi í London. Birgir kláraði Theo á tæknilega rothöggi eftir rúmar þrjár mínútur af fyrstu lotu en bardagi þeirra fór fram í léttvigt.
Diego Björn Valencia vann einnig sinn bardaga í London en hann hafði betur gegn David Panfil í 90 kg hentivigt.
Diego kláraði bardagann með armlás í annarri lotu. Hann tók bardagann með litlum fyrirvara eða á þriðjudag í síðustu viku. Það breytti engu, hann fór út og kláraði dæmið.
Sigurjón Rúnar Vikarsson var þriðji Íslendingurinn á bardagakvöldinu en hann tapaði eftir tæknilegt rothögg í þriðju lotu.
