Skoðun

Snjallborgin Reykjavík

Dagur B. Eggertsson skrifar
Í dag stendur Reykjavíkurborg fyrir ráðstefnu um snjallborgina Reykjavík í Hörpu. Á undanförnum árum höfum við lagt mikla áherslu á að nýta tækni í þjónustu við íbúa borgarinnar. Við fengum framsæknar tillögur úr starfshópi um snjallborgina Reykjavík, höfum starfað mikið með Cisco um að Reykjavík verði tilraunasvæði snjallborgar, Vodafone er samstarfsaðili okkar um snjallvæðingu Klambratúns og við höfum gert samninga við fyrirtæki í velferðarmálum sem mun bæta þjónustu við eldri borgara með nýrri velferðartækni. Allt er þetta hluti af snjallborginni Reykjavík sem er nokkurs konar samheiti yfir nýjar hugmyndir á viðfangsefni í borgarrekstri.

Aukin lífsgæði, betri þjónusta og tæknibreytingar

Reykjavík starfar í nýstárlegu landslagi sífellt örari tækniframfara og samfélagsbreytinga sem umbylta viðteknum venjum og gömlum gildum. Þar er mikilvægt að muna að Reykjavík er líka staðsett í samkeppnisumhverfi norrænna og evrópskra borga sem keppast um að laða til sín fólk. Nýleg úttekt Norrænu ráðherranefndarinnar leiddi í ljós að Reykjavík er að hækka verulega í samkeppnishæfni og lífsgæðum samanborið við helstu svæði á Norðurlöndum.



Ljósleiðaravæðingin

Það sem gerir Reykjavík að einstökum stað til snjallborgarvæðingar er að nú þegar höfum við ljósleiðaravætt allt höfuðborgarsvæðið sem hefur skilað okkur í fremstu röð snjallborga. Við búum við græna orku, tæknilæsi hér er mikið og fólkið okkar er vel menntað. Reykjavík hefur náð árangri sem hefur vakið mikla athygli erlendis við þróun þátttökulýðræðis og Reykjavík hefur alla burði til að gera hið sama sem snjallborg.



Fólk frekar en tæki

Á ráðstefnunni í Hörpu í dag gefst okkur tækifæri til að fá innsýn í snjallborgina Reykjavík og á hvaða leið við erum – en um leið heyra um það sem er efst á baugi í lausnum og framtíðarsýn á þau verkefni sem allar nútímaborgir eru að kljást við í dag.

Höfundur er borgarstjóri




Skoðun

Skoðun

Nálgunarbann

Fjölnir Sæmundsson,Sonja Ýr Þorbergsdóttir skrifar

Sjá meira


×