Íslenski boltinn

Guðni: Ekki átti ég nú von á að fara í formannsslag við heiðursformann sambandsins

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Guðni Bergsson.
Guðni Bergsson. Getty/Shaun Botterill
Guðni Bergsson, formaður KSÍ, viðurkennir það á Twitter reikningi sínum að hann hafi ekki átt von á því að vera fara í formannskjör á móti Geir Þorsteinssyni.

Geir Þorsteinsson tilkynnti það um helgina að hann ætli að bjóða sig fram sem formann KSÍ á 73. ársþingi KSÍ sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica þann 9. febrúar næstkomandi.

Geir var formaður KSÍ í tíu ár frá 2007 til 2017 en þar á undan hafði hann verið framkvæmdastjóri knattspyrnusambandsins í áratug.

Árin 2017 og 2018 voru því tvö fyrstu árin í tvo áratugi þar sem Geir var ekki innanbúðarmaður hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Nú vill Geir komast aftur að kjötkötlunum.

Guðni Bergsson tók við formennsku af Geir á 71. ársþingi KSÍ í Höllinni í Vestmannaeyjum 11. febrúar 2017. Guðni segist þrátt fyrir óvænt framboð vera til í baráttuna.

„Ekki átti ég nú von á að fara í formannsslag við heiðursformann sambandsins. Það hefur verið unnið gott starf hér innan KSÍ síðustu 2 árin. Höfum verið framsækin og kraftmikil - ég er til í baráttuna,“ skrifaði Guðni.

Á umræddu ársþingi KSÍ sem fór fram í Vestmannaeyjum í febrúar 2017 var Geir Þorsteinsson kosinn heiðursformaður sambandsins. 

Samkvæmt 43. grein í lögum KSÍ þá hefur heiðursformaður rétt til setu og málfrelsi á stjórnarfundum KSÍ og kemur fram fyrir hönd sambandsins þegar stjórn þess óskar eftir. Heiðursformenn KSÍ eru nú þrír; þeir Geir Þorsteinsson, Eggert Magnússon og Ellert B Schram.

Geir Þorsteinsson var í spjalli í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann sagði það ekki hlutverk sitt að dæma störf Guðna. Það væri aðildarfélaganna.


Tengdar fréttir

Mikil togstreita hefur myndast 

Geir Þorsteinsson býður sig fram til formanns KSÍ en gegndi þeirri stöðu á árunum 2007-17. Hann vill efla félögin í landinu og breyta skipulagi KSÍ. Hann segir nauðsynlegt að lægja öldurnar í íslenskum fótbolta.

Geir vill breyta skipulagi íslenskrar knattspyrnu

Geir Þorsteinsson mun bjóða sig fram til formanns KSÍ á ársþingi sambandsins í febrúar. Hann ræddi ákvörðun sína við Hörð Magnússon í kvöldfréttum Stöðvar 2.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×