Geir Þorsteinsson tilkynnti það um helgina að hann ætli að bjóða sig fram sem formann KSÍ á 73. ársþingi KSÍ sem fer fram á Hilton Reykjavík Nordica þann 9. febrúar næstkomandi.
Geir var formaður KSÍ í tíu ár frá 2007 til 2017 en þar á undan hafði hann verið framkvæmdastjóri knattspyrnusambandsins í áratug.
Árin 2017 og 2018 voru því tvö fyrstu árin í tvo áratugi þar sem Geir var ekki innanbúðarmaður hjá Knattspyrnusambandi Íslands. Nú vill Geir komast aftur að kjötkötlunum.
Ekki átti ég nú von á að fara í formannsslag við heiðursformann sambandsins. Það hefur verið unnið gott starf hér innan KSÍ síðustu 2 árin. Höfum verið framsækin og kraftmikil - ég er til í baráttuna #fotboltinetGuðni Bergsson tók við formennsku af Geir á 71. ársþingi KSÍ í Höllinni í Vestmannaeyjum 11. febrúar 2017. Guðni segist þrátt fyrir óvænt framboð vera til í baráttuna.
— Guðni Bergsson (@gudnibergs) January 7, 2019
„Ekki átti ég nú von á að fara í formannsslag við heiðursformann sambandsins. Það hefur verið unnið gott starf hér innan KSÍ síðustu 2 árin. Höfum verið framsækin og kraftmikil - ég er til í baráttuna,“ skrifaði Guðni.
Á umræddu ársþingi KSÍ sem fór fram í Vestmannaeyjum í febrúar 2017 var Geir Þorsteinsson kosinn heiðursformaður sambandsins.
Samkvæmt 43. grein í lögum KSÍ þá hefur heiðursformaður rétt til setu og málfrelsi á stjórnarfundum KSÍ og kemur fram fyrir hönd sambandsins þegar stjórn þess óskar eftir. Heiðursformenn KSÍ eru nú þrír; þeir Geir Þorsteinsson, Eggert Magnússon og Ellert B Schram.
Geir Þorsteinsson var í spjalli í Bítinu á Bylgjunni í morgun. Hann sagði það ekki hlutverk sitt að dæma störf Guðna. Það væri aðildarfélaganna.