Á þessum orðum lýkur opnu bréfi Kevin Stanford og Karenar Millen til Kaupþingsforkólfanna Magnúsar Guðmundssonar og Hreiðars Más Sigurðssonar. Þau Stanford og Millen voru meðal stærstu viðskiptavina bankans fyrir hrun og í bréfi sínu, sem birt var á vef Kjarnans, rekja þau í grófum dráttum samskipti og viðskipti sín við Kaupþing, Magnús og Hreiðar Má.
Í bréfinu segjast þau hafa verið „notuð í svikamyllu“ sem Hreiðar og Magnús eiga að hafa búið til, svikamyllu sem rekja má aftur til ársins 2001 þegar Kaupþing kom að kaupum á tískuvöruframleiðandanum Karen Millen. Fjórum árum síðar, í apríl 2005, keyptu þau Stanford og Millen hlutabréf í Kaupþingi, en sem tryggingu fyrir lánum vegna hlutabréfakaupana notuðu þau hluta hagnaðarins af sölu tískuvöruframleiðandans.
Sjá einnig: Kaupþing kaupir kröfu á tískukóng af eignarhaldsfélagi ríkisins
„Það sem Karen og ég vissum ekki á þeim tíma var að bréfin höfðu verið í „geymslu“ (óseld) frá því í hlutabréfaútboði Kaupþings þann 11. ágúst og 15. október 2004. Hlutabréfaaukningin nam 92,4 milljörðum íslenskra króna, sem tvöfaldaði stærð bankans og gerði honum mögulegt að kaupa FIH bankann í Danmörku. Hins vegar voru flest hlutabréfin seld, fyrir utan mín og Karenar, án nokkurra trygginga annarra en bréfanna sjálfra,“ skrifa Stanford og Millen.

Leynilegir bankareikningar eiginkvenna
Í bréfinu rekja þau Millen og Stanford samskipti sín við Kaupþingsmennina mánuðina fyrir fall bankanna haustið 2008. Til að mynda segir Kevin Stanford að Magnús hafi tjáð sér að þann 18. ágúst hefði Kaupþing í Lúxemborg keypt milljónir hluta í Kaupþingi og að bréfin hefðu verið skráð á Stanford - að honum forspurðum.Stanford kann því Kaupþingi fáar þakkir fyrir að krefja sig um 200 milljón pund vegna láns sem „Kaupþing hf. á að hafa lánað mér til að kaupa hina verðlausu“ hluti, án samþykkis eða vitneskju Stanford.
Sjá einnig: Karen Millen gjaldþrota og kennir Kaupþingi um
„Á meðan þið lifið á peningum vegna „Kaupthinking”, sem geymdir eru á leynilegum bankareikningum eiginkvenna ykkar í Sviss, erum við nauðbeygð til að verjast óréttlátum kröfum frá arftökum Kaupþings í Lúxemborg (Banque Havilland) og Kaupþingi hf. sem nota blekkingar ykkar til að reyna að hagnast.“

Stolnar evrur nýst Landspítala
Víkur þá sögunni að neyðarláni Seðlabanka Íslands til Kaupþings þann 6. október 2008, sem hljóðaði upp á 500 milljónir evra og veitt var með það fyrir augum að bjarga bankanum. Stanford segir ótrúlegt hvernig Hreiðari tókst að plata Seðlabankann til að fallast á lánið - „þegar þú vissir að Kaupþing var gjaldþrota; þú notaðir svo 171 milljón evrur af peningum landa þinna til að borga niður skuld Kaupþings í Lúxemborg við Lindsor Holdings Corporation til að undirbúa yfirtöku þína á Kaupþingi í Lúxemborg“Stanford bætir við að Seðlabankanum hafi aldrei tekist að endurheimta umræddar 171 milljón evrur.
„Það er líka kaldhæðnislegt að eftir að þið stáluð (171 milljón evrum) af íslensku þjóðinni, sem myndi duga til að borga fyrir nýtt þjóðarsjúkrahús, til að fjármagna hugmyndir ykkar um að kaupa Kaupþing í Lúxemborg, þá heldur íslenska þjóðin áfram að fjármagna hótelin ykkar í gegnum ríkisbankana, Landsbanka og Íslandsbanka. Það er líka ótrúlegt að Stefnir hf., dótturfélag Arion banka (sem áður hét Kaupþing hf.), hafi fjárfest í hótelverkefnum ykkar,“ skrifa þau Stanford og Millen.
Bréf þeirra má nálgast í heild sinni hér á ensku,sem og á vef Kjarnans.